Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   lau 14. september 2019 16:21
Ívan Guðjón Baldursson
Inkasso: Fjölnir upp í Pepsi Max - Grótta felldi Njarðvík
Mynd: Raggi Óla
Pétur Theódór gerði sigurmark Gróttu í dag.
Pétur Theódór gerði sigurmark Gróttu í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Hulda Margrét
Toppbarátta Inkasso-deildarinnar er nánast ráðin eftir 1-1 jafntefli Fjölnis og Leiknis R. í Grafarvoginum.

Fjölnir er búinn að tryggja sig aftur upp í Pepsi Max-deildina og nægir Gróttu eitt stig í síðustu umferð til að fara upp.

Staðan var markalaus í Grafarvoginum þar til á lokakaflanum. Ingibergur Kort Sigurðsson kom Fjölni þá yfir en Gyrðir Hrafn Guðbrandsson jafnaði skömmu síðar.

Það var mikil spenna á lokakaflanum og komu Fjölnismenn knettinum í netið en markið ekki dæmt gilt. Leiknismenn eru þremur stigum á eftir Gróttu og verða að treysta á að Seltirningar tapi gegn Haukum í lokaumferðinni.

Fjölnir 1 - 1 Leiknir R.
1-0 Ingibergur Kort Sigurðsson ('77 )
1-1 Gyrðir Hrafn Guðbrandsson ('81 )

Gríðarlega mikilvægur leikur fór fram í Njarðvík þar sem heimamenn þurftu sigur til að eiga von um að bjarga sér frá falli.

Atli Geir Gunnarsson kom heimamönnum yfir en Valtýr Már Michaelsson var snöggur að jafna. Pétur Theódór Árnason gerði sigurmark Gróttu í síðari hálfleik.

Njarðvíkingar settu mikla pressu á Seltirninga undir lokin en náðu ekki að jafna. Þeir eru þar með fallnir niður í 2. deild.

Grótta á erfiðan leik við Hauka í lokaumferð tímabilsins og nægir jafntefli til að komast upp í Pepsi Max-deildina.

Njarðvík 1 - 2 Grótta
1-0 Atli Geir Gunnarsson ('32 )
1-1 Valtýr Már Michaelsson ('33 )
1-2 Pétur Theódór Árnason ('59 )

Magni er þá kominn úr fallsæti eftir góðan sigur á heimavelli gegn Þrótti R. Grenvíkingar voru tveimur mörkum yfir í leikhlé en lokamínúturnar voru fullar af dramatík.

Þróttarar settu gífurlega pressu á Magna og komust nokkrum sinnum nálægt því að minnka muninn en inn vildi boltinn ekki fyrr en undir lokin. Sindri Scheving skoraði þá laglegt mark og spennan náði hámarki.

Það leið þó ekki langur tími þar til Guðni Sigþórsson innsiglaði sigur Magna með marki í uppbótartíma. Markið kom þvert gegn gangi leiksins en varnarleikur Þróttara klikkaði.

Magni er kominn einu stigi yfir Þrótt, sem er nú í fallsæti. Afturelding og Haukar eru með jafn mörg stig og Magni og því gríðarlega spennandi lokaumferð framundan.

Magna nægir stig gegn Þór á Akureyri á meðan Þróttur þarf helst sigur á móti Aftureldingu í hálfgerðum úrslitaleik um sæti í deildinni.

Magni 3 - 1 Þróttur R.
1-0 Gauti Gautason ('16 )
2-0 Kian Paul James Williams ('22 )
2-1 Sindri Scheving ('89 )
3-1 Guðni Sigþórsson ('91 )

Haukar unnu þá gríðarlega mikilvægan leik gegn Keflavík og jöfnuðu þannig Aftureldingu og Magna á stigum í fallbaráttunni.

Kristófer Dan Þórðarson setti tvö og Aron Freyr Róbertsson eitt og staðan var 3-0 eftir hálftíma leik í Hafnarfirði.

Rúnar Þór Sigurgeirsson minnkaði muninn fyrir Keflavík undir lokin en það dugði ekki til.

Haukar 3 - 1 Keflavík
1-0 Kristófer Dan Þórðarson ('11 )
2-0 Aron Freyr Róbertsson ('16 )
3-0 Kristófer Dan Þórðarson ('29 )
3-1 Rúnar Þór Sigurgeirsson ('87 )

Helgi Guðjónsson skoraði þá þrennu fyrir Fram í góðum sigri gegn Þór og gerði Harley Willard eina mark leiksins er Víkingur Ólafsvík sigraði Aftureldingu í Mosfellsbæ. Afturelding gat bjargað sér frá falli með sigri.

Fram 3 - 0 Þór
1-0 Helgi Guðjónsson ('24 )
2-0 Helgi Guðjónsson ('63 )
3-0 Helgi Guðjónsson ('90 )
Rautt spjald:Ignacio Gil Echevarria, Þór ('90)

Afturelding 0 - 1 Víkingur Ó.
0-1 Harley Willard ('65 )


Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner