Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   þri 01. júní 2021 17:06
Elvar Geir Magnússon
Lingard ekki í EM hópnum en byrjar fyrir England á morgun
Jesse Lingard.
Jesse Lingard.
Mynd: Getty Images
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands.
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands.
Mynd: EPA
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, opinberaði EM hópinn í dag og sat síðan fyrir svörum á fréttamannafundi.

Athygli vekur að þeir sex leikmenn sem komust ekki frá niðurskurðarhnífnum verða hinsvegar í hópnum í vináttulandsleikjunum fram að móti. England mætir Austurríki á morgun og Rúmeníu á sunnudag.

Southgate segir að leikmennirnir sex hafi sýnt gríðarlega fagmennsku þegar þeim var tjáð að þeir yrðu ekki í 26 manna lokahópnum.

„Maður vill aldrei færa slæmar fréttir. Þrír í hópnum vissu að þeir væru þarna til að æfa með okkur og fyrir þessa tvo æfingaleiki. Ben White, Ben Godfrey og Aaron Ramsdale hafa allir fært hópnum mikið," segir Southgate.

„Persónulega var mjög erfitt að ræða við Jesse Lingard sem hefur gefið svo mikið fyrir enska landsliðið. James Ward Prowse sem hefur verið fyrirliði U21 liðsins og Ollie Watkins sem hefur átt frábært tímabil með Aston Villa."

„Ég gaf þessum þremur möguleika á því að fara heim fyrst þeir voru ekki valdir. En þeir vildu allir vera áfram með hópnum. Ég býst við því að Jesse muni byrja leikinn gegn Austurríki á morgun."

Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, og Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, eru báðir í lokahópnum en þeir hafa verið að glíma við meiðsli.

„Það eru engir túristar valdir. Þessir leikmenn búa yfir svakalegri reynslu og það er þess virði að taka þá með. Þeir hafa ekki verið í sínu besta standi en það er rétt að hafa þá með, sérstaklega þar sem leyfilegur hópur var stækkaður," segir Southgate.

Allir leikir Englands í riðlinum verða leiknir á Wembley, fyrir framan áhorfendur. Liðið mætir Króatíu þann 13. júní. Skotland og Tékkland eru einnig í riðlinum.
Athugasemdir
banner
banner