Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA var gríðarlega ánægður með sigur liðsins á KA á Akureyri í dag. Fótbolti.net ræddi við hann eftir leikinn.
Lestu um leikinn: KA 2 - 3 ÍA
„Við vissum að við værum að koma í blóðugan bardaga. KA menn væru búnir að nýta hverja mínútu síðan í síðasta leik. þar sem þeir fengu stóran skell, að járna sig upp í þennan leik. Við þurftum að mæta klárir í það. Þetta var ekki fallegasti fótboltaleikurinn sem hefur verið spilaður í sumar en baráttan var til staðar og úr var hörku leikur," sagði Jón Þór.
„Ég er gríðarlega ánægður að hafa náð að kreista fram þennan sigur. Það þurfti gríðarlega mikið til. Það þurfti hjá hverjum einum og einasta leikmanni í mínu liði að kreista fram allt sem þeir áttu til að ná þessum sigri. Við vissum að KA myndi leggja þennan leik upp eins og um líf og dauða væri að ræða."
Það voru miklar sviftingar í fyrri hálfleik.
„Leikurinn var mun opnari í fyrri hálfleik en ég kærði mig um. Mér fannst við gera geysilega vel að koma til baka í fyrri hálfleiknum, lentum undir snemma og sýndum frábær viðbrögð við því, öflugan og góðan karakter og allt sem þú biður um," sagði Jón Þór.