Simon Tibbling er sænskur miðjumaður með frábæra ferilskrá. Hann samdi við Fram í aðdraganda Íslandsmótsins eftir að hafa glímt við erfið bakmeiðsli.
Tibbling gekk til liðs við Fram fyrir tímabilið frá Sarpsborg í Noregi en þessi þrítugi sænski miðjumaður hefur átt glæstan feril en hann var meðal annars hluti af U21 árs landsliði Svía sem vann EM árið 2015.
Hann ræddi við Fótbolta.net um komuna í Fram. Hann meiddist illa og missti af nær öllu tímabilinu með Sarpsborg áður en hann gekk til liðs við Fram. Hann sagðist hafa vonast til að fara aftur til Svíþjóðar og spila í efstu deild.
„Því miður voru liðin þar ekki tilbúin að taka sénsinn. Þau voru óörugg um það hvort ég gæti spilað yfir höfuð. Það var erfitt að sannfæra liðin um að ég væri orðinn góður," sagði Tibbling.
Umboðsmaðurinn hans sagði honum síðan frá áhuga frá Fram
„Ég vildi koma og sýna að ég væri í toppformi. Þeir buðu mér til Marbella (í æfingaferð) og ég var mjög ánægður að mæta þangað og spila fótbolta aftur, ég var búinn að vera frá í 9-10 mánuði. Það var því gott að sýna öllum að ég væri kominn í form og gæti spilað. Ég er mjög þakklátur að fá það tækifæri, sérstaklega þegar maður skoðar hvernig þetta fór með hinum liðunum, hvað þau voru hrædd um meiðslin," sagði Tibbling.
Hann er ekki svekktur að hafa ekki endað í betri deild en á Íslandi.
„Ég var farinn að hlakka til að byrja spila aftur. Deildirnar sem ég hef spilað í áður eru hærra skrifaðar en ég kem í nýtt land og læri hvernig Íslendingar spila fótbolta og tækifæri til að sjá eitthvað nýtt. Þetta er mikil reynsla fyrir mig og ég er mjög ánægður að Fram gaf mér þetta tækifæri," sagði Tibbling.
Hann tók sín fyrstu skref í meistaraflokksfótbolta hjá Djurgarden en var seldur til Groningen í Hollandi árið 2015. Hann hefur ekki spilað í Svíþjóð síðan og er ekki að flýta sér heim.
„Auðvitað bjóst ég alltaf við því að fara aftur heim. Ég hélt ég myndi gera það síðasta vetur, taldi það vera rétta tímapunktinn miðað við aldurinn og allt það. Ég sé mig spila lengur á Íslandi en það væri líka gaman að fara og spila aftur í sænsku deildinni. Ég er að njóta mín hér og sé mig spila lengur hérna, þetta hefur verið mikið ævintýri og ég hef lært mikið og get lært meira. Það er stór sigur fyrir mig að vera kominn aftur út á völl. Eftir tvær vikur spilum við gegn Vestra í risastórum leik, það er eitthvað sem ég hef saknað," sagði Tibbling en Fram mætir Vestra á Ísafirði þann 12. júlí í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.
Athugasemdir