
Víkingur er skrefi nær Íslandsmeistaratitlinum eftir sigur á Stjörnunni fyrr í kvöld. Liðið er nú með sjö stiga forskot þegar þrjár umferðir eru eftir. Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, var að vonum ánægður að leik loknum og ræddi við Fótbolta.net.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 3 Víkingur R.
„Þetta var risastór sigur. Það voru miklar tilfinningar í þessum leik, mikið undir og menn vissu hvernig þetta myndi líta út ef við myndum vinna. Miklar tilfinningar og maður sá það á spilinu. Þetta var mjög skemmtilegur leikur og var hádramatískur í lokin, hrikalega sætt.“
„Við erum vissulega komnir nær, við erum í góðri stöðu. Það eru samt sem áður níu stig í pottinum og við erum með sjö stiga forskot, þannig þetta er ekki komið. Við þurfum að ná okkur fljótt niður á jörðina og tökum FH í næsta leik.“
Við förum í þessa leiki og ætlum okkur að vinna þá. Við skuldum stuðningsmönnum okkar að taka á móti titlinum heima eftir tapið í fyrra. Það væri mjög sætt að vinna FH og vinna Íslandsmeistaratitilinn heima. Ég veit ekki hvort við fáum bikarinn en allaveganna að vinna titilinn fyrir framan okkar stuðningsmenn.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.