Stjarnan tapaði gegn Víkingi fyrr í kvöld í 24. umferð Bestu-deildar karla. Víkingur eru nú með sjö stiga forskot þegar þrjár umferðir eru eftir. Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, segir Víking vera komna með titilinn.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 3 Víkingur R.
„Það er bara þannig að þeir eru komnir eru með titilinn, það er barnalegt að halda öðru fram. Það er ekkert sálfræðistríð í því. Ég óska þeim til hamingju með það og flott sumar. Heilt yfir hafa þeir verið öflugir og vel að því komnir.“
Stjarnan jafnaði metin undir lok leiks en Víkingur skoraði sigurmark leiksins þegar langt var liðið á uppbótartímann.
„Það er auðvitað mjög súrt að tapa leiknum. Mér fannst við vera að sækja hann vel. Við auðvitað köstuðum öllu fram og það tók nokkrar mínútur að ná einhverjum strúktúr í það kaos, svo var það að koma og ég átti frekar von á að við myndum sækja sigurinn frekar en þeir.“
Samúel Kári gerðist sekur um dýrkeypt mistök í sigurmarki Víkings.
„Öll mistök geta verið dýrkeypt þegar staðan er jöfn. Þetta er auðvitað svekkjandi fyrir Samma sem er búinn að eiga frábært tímabil. Við bökkum hann upp og erum saman í þessu. Við töpuðum þessum leik allir saman, hann var ekki einn í því.“
Viðtalið við Jökul má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.