mið 01. september 2021 06:00
Victor Pálsson
Pogba: Sterkasta Man Utd lið sem ég hef verið í
Mynd: Getty Images
Paul Pogba hefur aldrei spilað með sterkara Manchester United-liði en þetta segir franski miðjumaðurinn sjálfur.

Pogba er mikilvægur hlekkur í liði Man Utd sem fékk til sín Jadon Sancho, Raphael Varane og Cristiano Ronaldo í sumar.

Ronaldo er að snúa aftur til Man Utd 36 ára gamall og mun leiða sóknarlínu liðsins á þessu tímabili eftir tvö ár hjá Juventus.

Pogba segist aldrei hafa leikið með betra liði á Old Trafford en hann hefur verið þar frá árinu 2016.

„Lið Manchester United hefur alltaf verið sterkt en þetta er klárlega það sterkasta," sagði Pogba við TV2.

„Það er í eðli félagsins að vinna titla. Við erum með sterkt lið sem getur orðið meistari. Við vitum að það verður erfitt en við gerum okkar besta til að lyfta titli á þessu tímabili."

Pogba tók það einnig fram að hann væri ánægður í herbúðum liðsins og væri ánægður með að fá að spila fótbolta á ný eftir gott sumarfrí.

Athugasemdir
banner
banner