Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 01. nóvember 2022 16:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ísak opnar sig: Kom heim til Íslands til að finna gleðina aftur
Ísak Snær Þorvaldsson.
Ísak Snær Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak blómstraði í Kópavogi í sumar.
Ísak blómstraði í Kópavogi í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Snær Þorvaldsson, besti leikmaður Bestu deildarinnar í sumar, var gestur í lokaútgáfunni af Innkastinu á þessu ári.

Ísak fór þar um víðan völl; ræddi um tímabilið, síðustu ár, U21 landsliðið og næsta skref í Noregi.

Ísak opnaði sig líka varðandi þunglyndi sem hann glímdi við í kringum það þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst. Hann bjó þá á Englandi þar sem hann var í akademíunni hjá Norwich City.

„Það var mikil óvissa. Ég var á láni hjá Fleetwood, nýkominn á lán. Svo var mótið stoppað og það var talað um það hvort það ætti að klára tímabilið eða ekki. Ég keyrði sex klukkutíma til Fleetwood því við áttum að byrja að æfa aftur. Ég var kominn hálfa leiðina og þá frétti maður að maður þyrfti að fara aftur heim," sagði Ísak.

„Þunglyndið tók smá í þarna... maður var bara að horfa á sjónvarpið og spila tölvuleiki. Það var ekkert annað."

Hvað gerði hann til þess að koma sér út úr þunglyndinu?

„Þetta byrjaði út í Norwich. Þá var ég fastur þar. Ég var mikið að halda þessu fyrir sjálfan mig, sem maður á ekki að gera. Ég talaði við menn í Norwich að ég þyrfti að taka mér frí. Ég kom heim til Íslands til að finna gleðina aftur. Það endaði með því að ég kom hingað heim á láni," sagði Ísak en hann fór í ÍA og spilaði þar í tvö tímabil. Hann naut sín vel á Akranesi og fann gleðina á ný með tímanum. Hann blómstraði svo algjörlega í Kópavoginum í sumar.

„Ég þurfti að finna stað til að njóta fótboltans aftur og ég var að gera það upp á Skaga. Maður er enn í sambandi við þessa gaura þarna á hverjum degi. Ég þurfti að finna mig aftur, ef það er hægt að segja það þannig," segir þessi öflugi leikmaður.

„Ég kem heim og finn mig aftur. Núna er ég tilbúinn að fara aftur út. Ég er tilbúinn í lífið aftur. Ég gæti ekki verið á betri stað núna. Það eru hæðir og lægðir, maður verður að taka góðu punktana í lífinu og njóta þeirra vel."

Ísak er á morgun á leið í sitt fyrsta verkefni með A-landsliðinu og svo fer hann til Noregs eftir áramót þar sem hann er búinn að semja við stærsta félagið þar í landi, Rosenborg.
Innkastið - Sá besti gestur í lokaþætti ársins
Athugasemdir
banner
banner