Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
banner
   fim 02. mars 2023 10:04
Elvar Geir Magnússon
Dómurinn yfir Sigga Bond stendur
Sigurður má ekki taka þátt í keppnistímabilinu 2023.
Sigurður má ekki taka þátt í keppnistímabilinu 2023.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur staðfest úrskurð aga- og úrskurðarnefndar um bann Sigurðar Gísla Bond Snorrasonar, fyrrum leikmanns Aftureldingar, frá allri þátttöku í fótbolta keppnistímabilið 2023.

Sigurður Gísli veðjaði á hundruð fótboltaleikja hérlendis síðasta sumar, þar á meðal voru leikir sem hann spilaði sjálfur með Aftureldingu í Lengjudeildinni.

Málið fór á borð aganefndar en það er fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Sigurður áfrýjaði niðurstöðunni en áfrýjunardómstóll staðfesti dóminn. Í vetur gekk Sigurður í raðir KFK frá Aftureldingu.

Úr dómi áfrýjunardómstóls í máli nr. 1/2023:
„Að mati dómsins er ótvírætt að í grein 6.2. laga KSÍ sé aðilum sem falla undir lögin og taka þátt í knattspyrnuleikjum á vegum KSÍ meinað og beinlínis óheimilt að taka þátt í hvers konar veðmálastarfsemi, beint eða óbeint, í tengslum við eigin leiki og eigin mót. Í tilfelli leikmanns, þá er viðkomandi óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi í tengslum við leiki sem leikmaður er þátttakandi í."

„Þá sé leikmanni óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi í tengslum við þau mót sem samningsfélag leikmanns eða það lið sem leikmaður er virkur leikmaður hjá er þátttakandi í. Með vísan til þessa þá er það mat dómsins að á því tímabili sem hér er til umfjöllunar, frá 23. júlí 2022 til 4. september 2022, þá nái grein 6.2. til knattspyrnuleikja áfrýjanda með Aftureldingu í Lengjudeild karla og annarra leikja sömu deildar og annarra keppna sem Afturelding var þátttakandi í á því tímabili.“

„Gerist leikmaður uppvís að broti gagnvart grein 6.2. laga KSÍ, þá tekur dómstóllinn undir sjónarmið í hinum áfrýjaða úrskurði að slíkt feli í sér brot á grundvallarreglu sem er alvarlegs eðlis. Þó verði dómurinn, með hliðsjón af dómi áfrýjunardómstóls KSÍ í máli nr. 1/2021, að gæta þess að sönnunarkröfur fyrir aga- og úrskurðarnefnd og eftir atvikum áfrýjunardómstóli sé uppfylltar við mat á sekt áfrýjanda í fyrirliggjandi máli. Nánar tiltekið þurfi dómurinn að leggja mat á það hvort fullnægjandi líkur [comfortable satisfaction] séu á að áfrýjandi hafi gerst brotlegur við grein 6.2. laga KSÍ. Við sönnunarmat dómsins á meintum brotum er í fyrsta lagi horft til þess að áfrýjandi geri ekki athugasemdir við þá getraunaleiki sem taldir eru upp í fylgiskjali sem varnaraðili hefur lagt fram. Þá horfir dómurinn einnig til þess að áfrýjandi hafi ekki komið á framfæri sérstökum athugasemdum við né andmælt sérstaklega lýsingu á meintum brotum áfrýjanda í greinargerð varnaraðila. Í ofanálag bendi ekkert til þess í málinu að þau gögn sem veðmálafyrirtækið Pinnacle sendi til skrifstofu KSÍ gefi ranga mynd af málavöxtum.“

„Dómurinn telur, með hliðsjón af framangreindu og með vísan til forsendna í hinum kærða úrskurði, að fullnægjandi líkur séu á að áfrýjandi hafi á tímabilinu 23. júlí 2022 til 4. september 2022 sýnt af sér verknað sem falli undir það að vera þátttaka í veðmálastarfsemi í tengslum við eigin leik og eigin mót í skilningi greinar 6.2. laga KSÍ. Þykir dómnum ótvírætt að áfrýjandi hafi tekið þátt í a.m.k. fimm veðmálum í tengslum við eigin leiki og eigin mót keppnistímabilið 2022. Hafi áfrýjandi í fjögur þessara skipta sjálfur tekið þátt í umræddum leikjum með liði mfl. karla hjá Aftureldingu í Lengjudeild karla.“


Athugasemdir
banner
banner
banner