Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 02. mars 2023 22:40
Ívan Guðjón Baldursson
Gætu hætt við þriggja liða riðla á HM
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Stjórnendur FIFA samtakanna eru að endurhugsa ákvörðun sína um að breyta riðlakeppni heimsmeistaramótsins róttækilega.


Næsta mót fer fram í Norður-Ameríku 2026 og verður það í fyrsta sinn sem 48 landslið taka þátt. Planið var að hafa 16 riðla með þremur þjóðum í hverjum riðli en nú gæti verið hætt við þau áform.

Stjórnendur FIFA voru gríðarlega ánægðir með hvernig riðlakeppnin í Katar fór fram þar sem mikil spenna var í flestum riðlum allt þar til lokaumferðirnar fóru fram.

Stjórn Alþjóðaknattspyrnusambandsins mun hittast í Rúanda um miðjan mars og funda um næsta heimsmeistaramót. Endanleg ákvörðun gæti verið tekin á þeim fundi og segja heimildarmenn BBC stjórnendur innan raða FIFA hallast að því að halda sama riðlakerfi og á síðasta móti.

„Þriggja liða riðlar hljómuðu mjög vel en það eru nokkur vandamál. Er sanngjarnt að þriðjungur liða sem komast á HM fari heim eftir tvo leiki? Við þurfum líka að passa okkur að gera ekki of langt mót," segir Victor Montagliani, forseti norður-ameríska knattspyrnusambandsins.

Þriggja liða riðlar myndu þýða að 80 leikir yrðu spilaðir á HM, en ef 48 lið spila í fjögurra liða riðlum gætu leikirnir orðið 104 í heildina. Mótið gæti því verið lengt og undirbúningstími leikmanna styttur á móti.


Athugasemdir
banner
banner
banner