fim 02. mars 2023 21:00
Ívan Guðjón Baldursson
Promes fer ekki til Hollands af ótta við handtöku
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images

Kantmaðurinn Quincy Promes ætlar sér ekki að fljúga aftur til Hollands til að mæta fyrir dóm vegna ákæru fyrir tilraun til manndráps.


Promes er smeykur um að vera handtekinn og geymdur í varðhaldi þar til niðurstaða fæst í málið.

Promes er lykilmaður í liði Spartak Moskvu í Rússlandi og er fyrrum landsliðsmaður Hollands, þar sem hann skoraði 7 mörk í 50 leikjum áður en hann lagði landsliðsskóna á hilluna.

Robert Malewicz, lögfræðingur Promes, greinir frá því að leikmaðurinn ætli að halda sig í Rússlandi. Hann er samningsbundinn Spartak og myndi handtaka í Hollandi setja þann samning í hættu.

„Þeir vilja halda honum í varðhaldi í fleiri vikur og það setur samning hans við Spartak í hættu. Þess vegna hef ég ráðlagt honum að vera áfram í Rússlandi," segir Malewicz.

Fjölmiðlar hafa sagt að Promes sé að reyna að öðlast rússneskan ríkisborgararétt en Malewicz segir svo ekki vera.  

Promes er grunaður um að hafa ráðist að frænda sínum vopnaður hníf í fjölskylduboði í Hollandi. Samkvæmt fjölmiðum þar í landi stakk Promes frænda sinn sem var heppinn að lifa árásina af.

Promes var leikmaður Ajax þegar árásin átti sér stað en var ekki lengi að flytja til Rússlands þegar ákæruvaldið byggði mál gegn honum.

Réttarhöld hefjast á morgun og mun lögfræðingur Promes vera viðstaddur en ekki leikmaðurinn sjálfur. 

Promes er einnig grunaður um aðild að ýmsum fíkniefnamálum þar sem hann er sagður hafa fjárfest háum upphæðum í fíkniefnakaup. 


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner