Fyrirliðar ensku úrvalsdeildarfélaganna eru í viðræðum um hvort haldið verði áfram að krjúpa á hné fyrir upphafsflaut leikja í ensku úrvalsdeildinni til að sýna baráttunni gegn kynþáttafordómum stuðning, eða hvort það verði farnar aðrar leiðir.
Úrvalsdeildartímabilið hefst á föstudaginn og hafa fyrirliðar úrvalsdeildarfélaganna þegar fundað einu sinni um málið án þess að komast að niðurstöðu. Það eru skiptar skoðanir um gagnsemi þess að sýna baráttunni stuðning með þessum hætti.
Fyrirliðarnir ræða nú málefni fundarins við liðsfélaga sína og mæta svo aftur á annan fund í vikunni þar sem gæti verið gripið til kosninga.
Wilfried Zaha hætti að krjúpa í febrúar 2021 því hann sá ekki gagnið í því og ákváðu nokkur félagslið að gera slíkt hið sama, þar á meðal Derby, Brentford, Bournemouth og QPR.
Margir leikmenn eru þeirrar skoðunar að það sé gagnslaust að krjúpa fyrir upphafsflautið vegna þess að flestum er nú þegar orðið ljóst hvað kynþáttafordómar snúast um og að þeir sem kjósi að beita fordómum geri það vísvitandi til ögrunar.
Crystal Palace tekur á móti Arsenal í opnunarleik tímabilsins.