
„Þetta er geðveik tilfinning," sagði Daníel Finns Matthíasson, leikmaður Leiknis, eftir 2-4 útisigur gegn Njarðvík í Lengjudeildinni.
Lestu um leikinn: Njarðvík 2 - 4 Leiknir R.
Daníel skoraði tvö af mörkum Leiknis og hann var skiljanlega mjög sáttur í leikslok.
„Þetta var ekki mikill fótboltaleikur, þetta var hark. Það voru 20 metrar á sekúndu og þetta var skrítinn fótboltaleikur, en ég er mjög sáttur."
„Við vissum nákvæmlega út í hvað við vorum að fara, þetta var bara barátta. Við gerðum það sem við þurftum að gera og erum komnir í umspilið."
Leiknir tryggði sér þáttökurétt í umspilinu um sæti í Bestu deildinni í dag. Er Daníel með óskamótherja?
„Nei, við verðjum að sjá til. Þetta eru allt góð lið," sagði Daníel en hann segir að liðið stefni auðvitað upp um deild.
Fyrra mark Daníels kom úr vítaspyrnu sem má lýsa sem skrípamarki. Njarðvíkingar voru gríðarlega ósáttir við markið en þeir vildu meina að Daníel hefði skotið í boltann með öðrum fæti, þaðan hafi hann farið í hinn fótinn. Svo var spurning hvort boltinn hefði farið yfir línuna.
„Ég hef eiginlega ekki hugmynd um hvað gerðist. Ég var að vona að línuvörðurinn myndi lyfta flagginu og hann gerði það. Ég hef ekki hugmynd um hvað gerðist en hann endaði inni," sagði Daníel en hann rann í vítinu.
Hægt er að sjá viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir