Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby í Danmörku, segist hafa hafnað mörgum starfstækifærum á undanförnum mánuðum.
Freyr hefur gert frábæra hluti með Lyngby. Hann kom liðinu upp í dönsku úrvalsdeildina og tókst með kraftaverki að halda Lyngby upp í deildinni á síðustu leiktíð. Íslendingaliðið mikla hefur svo byrjað nýtt tímabil frábærlega.
Freyr, sem er einn færasti þjálfari okkar Íslendinga, hefur fengið tilboð frá bæði landsliðum og félagsliðum, en ekkert sem hefur heillað hann nægilega mikið. Hann er ánægður hjá Lyngby og það þarf mikið svo hann yfirgefi félagið.
„Á einhverjum tímapunkti verð ég rekinn eða yfirgef félagið. Það er ekki eitthvað sem ég er að hugsa um núna," segir Freyr í samtali við Tipsbladet.
„Það hafa mörg tækifæri komið upp á síðustu tólf mánuðum en ekkert sem hefur hentað mér vel. Það hafa félagslið og landslið sýnt mér áhuga. Og það er skemmtilegt. Ég er mannlegur og það styrkir egóið mitt. En þetta þarf að vera eitthvað virkilega spennandi til að toga mig frá Lyngby."
Freyr er samningsbundinn Lyngby til ársins 2025.
Athugasemdir