Kristall Máni Ingason var í byrjunarliðinu hjá Sönderjyske og skoraði fyrsta mark leiksins í þægilegum sigri gegn Fredericia í efstu deild danska boltans í dag.
Kristall skoraði á níundu mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Mads Agger og lék Daníel Leó Grétarsson allan leikinn í varnarlínunni. Daníel Freyr Kristjánsson var ekki með Fredericia vegna meiðsla.
Sönderjyske er um miðja deild með 15 stig eftir 12 umferðir á meðan Fredericia situr eftir í fallsæti með 11 stig.
Í Tyrklandi lék Andri Fannar Baldursson allan leikinn á miðjunni hjá Kasimpasa sem tapaði 2-0 gegn Eyupspor á útivelli.
Eyupspor var talsvert sterkara liðið og verðskuldaði sigurinn. Kasimpasa er með 9 stig eftir 9 umferðir, þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Kolbeinn Þórðarson var þá ekki með í tapi Göteborg á heimavelli gegn toppliði Mjällby í efstu deild í Svíþjóð, en Gautaborg er fjórum stigum frá Evrópusæti þegar þrjár umferðir eru eftir.
Mjällby tryggði sér titilinn með þessum sigri eftir magnaða vegferð, en það búa aðeins 1,200 manns í bænum sjálfum og þá eru aðeins rétt rúmlega 10,000 íbúar á svæðinu í kring.
Kolbeinn var ekki með vegna leikbanns útaf uppsöfnuðum gulum spjöldum.
Gísli Eyjólfsson sat að lokum allan tímann á bekknum er Halmstad lagði Degerfors að velli. Halmstad er svo gott sem búið að forða sér úr fallbaráttunni með þriðja sigrinum í síðustu fjórum deildarleikjum.
Sönderjyske 3 - 0 Fredericia
1-0 Kristall Máni Ingason ('9)
2-0 Alexander Lyng ('43)
3-0 Rasmus Vinderslev ('68)
Eyupspor 2 - 0 Kasimpasa
Göteborg 0 - 2 Mjallby
Degerfors 0 - 1 Halmstad
Athugasemdir