Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   þri 03. maí 2016 11:40
Hallbera Guðný Gísladóttir
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Einhversstaðar þarf að byrja
Hallbera Guðný Gísladóttir
Hallbera Guðný Gísladóttir
Hallbera Gísladóttir - landsliðskona og leikmaður Breiðabliks.
Hallbera Gísladóttir - landsliðskona og leikmaður Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik í Pepsi-deild kvenna.
Úr leik í Pepsi-deild kvenna.
Mynd: Fótbolti.net
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Ég veit ekki afhverju en fyrir ári síðan settist ég fyrir framan tölvuna og skrifaði “pistil” um kvennaknattspyrnu. Ég hef aldrei áður sest niður og skrifað pistil en mér fannst ég verða að tjá mig. Mig langaði rosalega mikið til þess að birta hann en svo nennti ég eiginlega ekki að standa í því. Nennti ekki að heyra í þeim sem eru ósammála og nennti ekki að standa í því að þurfa að svara fyrir mig. Fannst þetta líka bara asnalegt. Mér finnst voða gott þegar aðrir nenna að tjá sig en sleppi því oftast sjálf, finnst gaman að lesa umræðuna og fylgjast með en tek engan sérstakan þátt. Ég er að fara 100% útfyrir þægindaramman minn með því að henda þessu á netið en ég ber ábyrgð sem afrekskona í íþróttinni að láta heyra í mér. Það er ekki alltaf hægt að treysta á að aðrir vinni verkið fyrir mann. Eftir að hafa fylgst með þeirri frábæru umfjöllun sem Dominos deild karla OG kvenna fékk, finnst mér þessi pistill eiga vel við í dag, þrátt fyrir að vera orðin ársgamall. (Sérstaklega í ljósi þess að ég á von á því að pepsi deild kvenna verði mjög spennandi í ár, mögulega aldrei verið sterkari)

Ég er alin upp á Akranesi sem eins og flestir vita er mikill fótboltabær. Ég byrjaði ung að mæta á völlinn og var svo heppin að fá að fylgjast með liðinu mínu taka á móti hverjum titlinum á fætur öðrum. Mínar hetjur í fótboltanum voru Óli Þórðar, Haddi Ingólfs, Steini Gísla og allir þessir ótrúlega flottu fótboltamenn sem spiluðu fyrir ÍA. Þeir voru stjörnur í mínum augum.

Á Akranesi var líka fullt af flottum fótboltakonum, eitthvað sem ég hafði ekki hugmynd um.
Í gegnum árin hef ég þurft að sætta mig við það að mín íþrótt skipti ekki jafn miklu máli og íþróttin sem bræður mínir og frændur spiluðu, þrátt fyrir að ég hafi lagt jafn mikið á mig og þeir og hugsanlega meira. Foreldrar mínir og fjölskylda hvöttu mig að sjálfsögðu áfram en umhverfið sýndi mér að mín vinna var einfaldlega ekki jafn mikilvæg.
Kvennaknattspyrna á Íslandi fær sorlega litla umfjöllun í fjölmiðlum og þá mæta einnig sárafáir áhorfendur á deildarleiki. Áhuginn er einfaldlega ekki til staðar. Mér fannst þetta því miður eðlilegur hlutur og sætti mig við þetta áður en ég fór erlendis að spila.
Árið 2012 fór ég til Svíþjóðar að spila með liðinu Piteå IF. Það sem kom mér mest á óvart við þennan bæ var að kvennaknatspyrna var vinsælli heldur en karlaknattspyrna. Við fengum besta æfingatíman, við fengum mun meiri umfjöllun í blöðunum og það allra ótrúlegasta var að við fengum fleiri áhorfendur á leiki! Oftast voru áhorfendur í kringum eittþúsund en mest fóru þeir upp í tvöþúsund og fimmhundruð manns. Tilfinningin að spila fyrir framan fullan völl (þó hann sé lítill) er ólýsanleg. En það er líka tilfinning sem ég hef eiginlega aldrei upplifað á mínum knattspyrnuferli.

Nú í vor var verið að ganga frá sjónvarpssamningi í Svíþjóð sem gerir það að verkum að ALLIR leikir í efstu deild kvenna verða sýndir í sjónvarpi. Á Íslandi er oftast ekki sýnt frá kvennaleikjum í sjónvarpi. Stundum eru einhver mörk sýnd ef það er hægt að hafa upptökuvél á vellinum, en oftast er því einfaldlega sleppt. SportTV mun þó “stream-a” valda leiki í sumar og fá þeir hrós fyrir.

En hef ég einhvern rétt á því að kvarta? Eigum við ekki bara að vera þakklátar fyrir það að fjölmiðlar taki sér þó tíma í það að skrifa um helstu úrslit og markaskorara? Er ekki of mikið að ætlast til þess að við fáum almennilega umfjöllun og að einhverjir leikir séu jafnvel sýndir í sjónvarpinu? Ég veit að þetta er dýrt og áhuginn er mun minni heldur en á pepsí deild karla. En málið er að einhversstaðar þarf að byrja. Þetta ferli mun örugglega taka tíma og kanski munu bara örfáar hræður horfa á þessa leiki til að byrja með, en hugsanlega með breyttu viðhorfi og betri markaðssetningu er hægt að auka vinsældir kvennaknatspyrnunnar á Íslandi og þar með veita ungum fótboltastelpum og strákum fleiri kvenkynsfyrirmyndir.

En það þarf einhver að taka af skarið og gera þetta almennilega.

Að lokum ber að þakka þeim sem hafa lagt á sig mikla vinnu í að stuðla að bættri kvennaknattspyrnu á Íslandi – sjáumst á vellinum í sumar.
Hallbera Guðný Gísladóttir, knattspyrnukona.
Athugasemdir
banner
banner