Harry Amass, leikmaður Manchester United, hefur vakið athygli á undirbúningstímabilinu en hann hefur verið að spila mikið í liði United í sumar.
Harry er aðeins 17 ára gamall og spilar í vinstri bakverði. Hann kom til United í fyrra frá Watford og þykir mikið efni.
Erik Ten Hag, stjóri Manchester liðsins, segir að það sé ekki langt þangað til hann fer í svipað hlutverk og miðjumarinn Kobbie Mainoo. Mainoo byrjaði sinn fyrsta leik fyrir félagið gegn Everton í Nóvember í fyrra í 3-0 sigri. Síðan þá hefur hann verið fastamaður í Manchester United og enska landsliðinu.
United eiga tvo vinstri bakverði sem eru báðir meiddir. Tyrell Malacia hefur verið lengi frá og þá er Luke Shaw einnig búinn að vera meiddur lengi.
Amass hefur verið að fá tækifærið í sumar og er að standa sig fantavel í United treyjunni ef marka má æfingaleikina. Hann var t.a.m. arkitektinn að marki Amad Diallo með frábærri fyrirgjöf og átti tvær tæklingar á Rodri og Bellerín sem vöktu athygli líka.
‚Ef við þjálfum hann vel gæti hann verið á sama stað og Mainoo í fyrra á næstu þremur mánuðum.‘ sagði Ten Hag um Amass.
Amass sagði að hann hafi ekki búist við að fá tækifærið að spila fyrir United svona snemma.
‚Þetta gerðist líklega hraðar en ég átti von á. Það koma meiðsli og þá þarf maður bara að vera klár og nýta sénsinn.‘ sagði varnarmaðurinn ungi.