Alberto Gilardino, stjóri Genoa, er orðinn hræddur um það að missa Albert Guðmundsson frá félaginu.
Albert var frábær á síðustu leiktíð með Genoa og hefur verið að stíga upp enn frekar núna þegar liðið er mætt upp í ítölsku úrvalsdeildina.
Albert átti stórleik gegn Udinese síðasta sunnudag þar sem hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-2 jafntefli. Eftir leikinn vildi Gilardino, sem er fyrrum leikmaður ítalska landsliðsins, ekki tala of mikið um Albert.
„Við skulum ekki tala of mikið hann því þá munu önnur félög reyna að taka hann frá okkur," sagði Gilardino og hló.
„Hann verður að halda áfram svona og að mínu mati getur hann enn bætt sig mikið. Hann hefur lagt mikið á sig fyrir liðið."
Athugasemdir