Gareth Bale, fyrrum leikmaður Real Madrid og Tottenham, telur að egypski sóknarmaðurinn Mohamed Salah sé að tala opinskátt um samningamál sín til að fá meiri pening frá Liverpool.
Salah, sem er talinn einn af bestu fótboltamönnum í sögu Liverpool, verður samningslaus eftir tímabilið en hann hefur greint frá því að félagið hafi ekki boðið honum nýjan samning.
Viðræður hafa átt sér stað en aðilum kemur ekki saman um lengd samningsins eða laun. Samkvæmt Athletic er Salah tilbúinn að gera eins árs samning, en það kemur einnig fram að hann sé óánægður hægagang viðræðnanna.
Hann tjáði sig um samningaviðræðurnar eftir sigurinn á Southampton í síðustu viku og var gagnrýndur fyrir að ræða þessa hluti þegar Liverpool átti mikilvæga leiki fram undan.
Bale, sem var spekingur í setti á TNT Sports yfir leik Liverpool og Real Madrid, sagði Salah vera að nota þekkta taktík til að fá betri laun
„Ég er viss um að hann sé bara að búa til hávaða til að fá meiri pening, svona ef ég á að vera hreinskilinn,“ sagði Bale yfir leik Liverpool og Real Madrid.
Walesverjinn var spurður að því hvort hann sjálfur hafi notað þessa taktík á ferlinum og viðurkenndi hann það.
Stuðningsmenn Liverpool vilja að félagið flýti sér að ganga frá samningamálum við Salah, sem hefur verið þeirra besti maður á tímabilinu með 13 mörk og 11 stoðsendingar.
Athugasemdir