Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   lau 04. mars 2023 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Segir Man City fá ósanngjarna meðferð frá dómurum - „Þeir geta gert það sem þeir vilja"
Pep Guardiola
Pep Guardiola
Mynd: Getty Images
Ederson fékk gula spjaldið gegn Arsenal því hann var lengi að koma boltanum í leik gegn Arsenal
Ederson fékk gula spjaldið gegn Arsenal því hann var lengi að koma boltanum í leik gegn Arsenal
Mynd: EPA
Pep Guardiola, stjóri Manchester City, er orðinn vel þreyttur á dómurum ensku úrvalsdeildarinnar en hann segir liðið ekki fá sanngjarna meðferð.

Erik ten Hag, stjóri Manchester United, talaði um það eftir 2-0 sigurinn á Newcastle United að lærisveinar Eddie Howe gerðu allt til þess að drepa leikinn með því sóa tíma. Ten Hag sagði að þetta væri pirrandi nálgun hjá Newcastle.

Guardiola var spurður hvort hann væri sammála Ten Hag varðandi þetta og lét hann gamminn geisa.

„Við erum það lið sem sóar minnstum tíma í deildinni og þegar við fórum og spiluðum við Arsenal á útivelli þá fengum við gult spjald eftir 36 mínútur, þannig ekki hafa áhyggjur af tímasóun. Ég veiti því enga athygli.“

„Ég er meira að eyða tíma mínum í að hugsa hvað við þurfum að gera til að vinna Newcastle, hvernig þeir pressa og öll vandamálin sem við þurftum að eiga við þegar við spiluðum við þá á útivelli í byrjun tímabilsins.“

„Þetta veltur allt á dómaranum en ég er nokkuð viss um að það verði Ederson sem fái gula spjaldið. Í hvað mörg þúsund milljón leikjum koma lið á Etihad þar sem markverðirnir þeirra sóa tíma?“

„Þetta eru 20 sekúndur í hvert einasta skipti. Markspyrnan, svo kom löngu boltarnir aftur og aftur en ekkert gerist. Það gerist nákvæmlega ekki neitt og þegar við viljum koma spilinu af stað fáum við gula spjaldið. Þess vegna er ég langt frá því að tala um dómarana því mér gæti ekki verið meira sama. Þeir geta gert það sem þeir vilja,“
sagði Guardiola.

Guardiola var þá spurður hvort hann væri búinn að hafa samband við ensku úrvalsdeildina og leggja fram kvörtun en það hefur hann ekki gert þar sem deildin sakar Manchester City um að hafa brotið fjárhagsreglur ítrekað og er því ekkert samband þar á milli.

„Hvaða yfirvöld? Ég tala ekki við ensku úrvalsdeildina því við erum ásakaðir af henni. Engir dómarar og engin úrvalsdeild.“

Er meðferðin á Man City ósanngjörn?

„Í þessu tilviki, já. Hversu oft þarf ég að kvarta yfir dómurum á blaðamannafundum? Leikurinn er búinn þegar hann er búinn. Ég veit ekki einu sinni fyrir leiki hvaða dómari mun flauta leikinn.. Ég veit hver það er þegar ég sé andlitið á viðkomandi en ég tala ekki við þá fyrir eða eftir leik. Við getum ekki talað um ensku úrvalsdeildina í augnablikinu því við erum uppteknir með lögfræðingum okkar að undirbúa málsvörnina. Ég hef ekki tíma til að eyða orku í þetta,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner