
Íslenska landsliðið er komið saman og undirbýr sig fyrir leik gegn Lúxemborg í undankeppni EM 2024. Liðið æfði í dag í Mainz og gerir það einnig næstu tvo daga áður en förinni er heitið yfir til Lúxemborgar. Leikurinn verður svo á föstudagskvöld í beinni textalýsingu hér á Fótbolti.net.
Eftir æfingu dagsins ræddi landsliðsþjálfarinn Age Hareide við Fótbolta.net.
„Við þurfum sex stig, við þurfum að stefna á þriðja sætið og við þurfum að vinna Lúxemborg og Bosníu. Það er synd, því mér fannst við gera vel í báðum leikjum; gegn Portúgal og Slóvakíu í júní en fengum ekki það sem við áttum skilið. Fótbolti er þannig stundum. Við vörðumst vel gegn Portúgal en töpuðum á einu mjög skrítnu atviki í uppbótartíma, en það er farið núna og núna þurfum við að líta fram á við á nýtt tækifæri og getum byggt á því sem við gerðum á vellinum. Við viljum búa til færi gegn Lúxemborg og það sem mikilvægast er er að skora," sagði sá norski.
Þurfum að gera tvo hluti á sama tíma
Eru allir hér heilir heilsu?
„Allir sem eru hér eru heilir. Við skildum Arnór Sigurðsson, Sverri Inga Ingason og Aron Einar Gunnarsson eftir heima. Aron er enn að glíma við meiðsli í ökkla. Það eru reynslumiklir leikmenn frá, við þurfum að setja traustið á yngri leikmenn og við þurfum einnig að horfa á yngri leikmennina upp á framtíðina. Við þurfum að gera tvo hluti á sama tíma; reyna byggja upp lið fyrir framtíðina og byggja upp lið sem getur unnið nægilega marga leiki til að koma okkur á EM."
Mikilvægt fyrir framtíð Íslands
Fyrirliðinn er frá, hvernig er að vera án hans?
„Við misstum hann út í fyrstu tveimur leikjunum, það var högg. En liðið gerði vel án hans, við verðum að vera nægilega sterkir til að geta stundum spilað án okkar bestu leikmanna. Við höfum ekki úr svo mörgum að velja, við þurfum að reyna breikka hópinn og við getum tekið aðra yngri leikmenn inn til að skoða þá. Það er einnig mikilvægt fyrir framtíð Íslands."
Hefði getað slitið hásinina
Eru meiðsli Arons alvarleg?
„Ég veit það ekki, vonandi ekki. Við vorum mjög nálægt því að spila honum í júní en honum var ráðlagt að spila ekki af því þá hefði hann getað slitið hásinina og það hefði gert stöðuna enn verri."
Sverrir þarf að hvíla
Sverrir Ingi lék fyrstu 90 mínúturnar með Midjtylland síðasta fimmtudag. Sá leikur fór í framlengingu og vítaspyrnukeppni en Sverrir fór af velli eftir venjulegan leiktíma.
„Hann hafði glímt við meiðsli fyrir þann leik en hann spilaði 90 mínútur á fimmtudag. Það var of mikið. Vökvinn kom aftur inn og við þurftum að hvíla hann."
Hörður Björgvin miðvörður
Hareide kallaði inn vinstri bakvörðinn Guðmund Þórarinsson inn í hópinn vegna meiðsla Sverris. Horfir hann núna á Hörð Björgvin Magnússon núna sem miðvörð í hópnum?
„Já, hann mun berjast um þá stöðu núna. Við höfum tekið inn tvo vinstri bakverði í Þórarinssyni og (Kolbeini) Finnssyni. Ég horfi á Hörð í miðvarðastöðunni."
Guðlaugur Victor Pálsson og Hjörtur Hermannsson eru einnig kostir í miðvarðastöðurnar.
Horfum fyrst til leikmanna sem spila á hærra getustigi
Var einhver í íslensku deildinni sem var nálægt því að vera valinn í hópinn?
„Nei, ekki í þetta skiptið. Það eru einhverjir ungir leikmenn þar, en við horfum fyrst til leikmanna sem spila á hærra getustigi í Evrópu. Við tókum inn Þórarinsson af því hann hefur verið með hópnum áður, er reynslumikill leikmaður. Við erum með blöndu milli yngri og svo reyndari leikmanna."
Nefnir þrjá miðjumenn sem eru spennandi kostir
Andri Fannar Baldursson æfði líkt og Kolbeinn með íslenska hópnum í júní. Var hann nálægt hópnum?
„Hann hefur gert vel með Elfsborg. (Kolbeinn) Þórðarson er að spila með Gautaborg líka, (Samúel Kári) Friðjónsson er að spila í Grikklandi. Það eru yngri leikmenn sem eru mjög áhugaverðir upp á framtíðina. Við gætum tekið þá inn þegar líður á til að skoða þá. Það er betra þegar þeir æfa með okkur, þá getum við séð meira af þeirra gæðum."
Munum taka fleiri áhættur
Ísland er sjö stigum á eftir 2. sætinu í riðlinum þegar sex leikir eru eftir. Ef staðan er jöfn í komandi leikjum og skammt eftir af leikjunum, ætlar landsliðsþjálfarinn að taka áhættur til að reyna landa sigri?
„Klárlega, við þurfum að vinna og við munum taka fleiri áhættur í leikjunum til að ná stigunum sem við þurfum. Þetta er núna undir strákunum komið. Við munum reyna setja leikinn þannig upp að þeir geti gefið sig alla í hann og vonandi landað þremur stigum," sagði Hareide.
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum efst.
Stöðutaflan

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir