Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 04. október 2019 23:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Hver er þessi Harry?"
Caglar Soyuncu.
Caglar Soyuncu.
Mynd: Getty Images
Leicester seldi Harry Maguire fyrir 80 milljónir punda.
Leicester seldi Harry Maguire fyrir 80 milljónir punda.
Mynd: Getty Images
Blaðamaðurinn Paul Doyle skrifar grein í Guardian í dag þar sem hann fjallar um góðan árangur Leicester þegar kemur að varnarleik.

Greinin ber heitið: „Hver er þessi Harry? Hvernig vörn Leicester blómstraði þrátt fyrir 80 milljón punda söluna á Maguire."

Leicester seldi miðvörðinn Harry Maguire til Manchester United í sumar fyrir 80 milljónir punda. Hann varð dýrasti varnarmaður sögunnar.

Þrátt fyrir það er Leicester með besta varnarárangur ensku úrvalsdeildarinnar, ásamt Liverpool, það sem af er þessu tímabili. Leicester hefur aðeins fengið á sig fimm mörk í fyrstu sjö leikjunum.

„Hafiði heyrt um félagið sem seldi verðmætasta miðvörðinn sinn á 80 milljónir punda, keypti ekki mann inn í staðinn og endaði með bestu vörnina í ensku úrvalsdeildinni? Jæja, haldiði því út af fyrir ykkur um stund. Mótið er enn ungt og þú vilt ekki ráðleggja Leicester að fara hlæjandi alla leið í bankann ennþá. En Leicester á vissulega rétt á því að brosa fyrir leikinn gegn Liverpool á laugardag, gegn eina liðinu sem getur haldið því fram að vera með betri varnarlínu," skrifar Doyle.

„Það er ekki verið að tala illa um Maguire með því að segja að Leicester hafi litið betur út eftir brottför hans. Frekar er verið að fagna tveimur jákvæðum hlutum hjá Leicester: þau áhrif sem eftirmaður hans, Caglar Soyuncu, hefur haft; og sú staðreynd að Soyuncu hefur stigið inn í miklu betra umhverfi en Maguire hjá United."

Doyle skrifar einnig um Jonny Evans, og hversu slæm ákvörðun það var hjá Manchester United að selja hann á sínum tíma. Evans og Soyuncu mynda miðvarðarpar Leicester.

„Að öðrum punkti. Af mörgum slæmum ákvörðunum Manchester United síðustu árin, þá var það að selja Jonny Evans til West Brom fyrir 6 milljónir punda árið 2015, ein sú versta. Að kaupa hann fyrir 3,5 milljónir punda eftir fall West Brom úr ensku úrvalsdeildinni, var ein af mörgum góðum hjá Leicester. Mánuði eftir þau kaup, þá keypti Leicester Soyuncu frá Freiburg fyrir 19 milljónir punda. Núna líta þau kaup mjög vel út. Ricardo Pereira kom á svipuðum tíma og Evans og Soyuncu. Hann og Ben Chilwell eru tveir af bestu bakvörðum ensku úrvalsdeildarinnar. Leicester er með hrikalega öfluga varnarlínu."

„Það var ekki augljóst að þetta myndi ganga svona vel upp. Ef United hefði ekki beðið þangað til á síðustu stundu til að opna veskið fyrir Maguire, þá hefði Leicester líklega keypt annan miðvörð. Í staðinn fyrir að flýta sér að kaupa einhvern, þá ákváðu þeir að gefa Soyuncu tækifæri. Hann hefur nýtt það vel."

Greinina má í heild sinni lesa hérna.

Leicester mætir Liverpool í mjög áhugaverðum leik í ensku úrvalsdeildinni á morgun.
Athugasemdir
banner