Man Utd gæti misst Fernandes - Napoli vill Mainoo - Barcelona og Liverpool berjast um Upamecano
banner
   lau 04. október 2025 21:30
Ívan Guðjón Baldursson
Caballero: Ógleymanleg stund
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Willy Caballero aðstoðarþjálfari Chelsea svaraði spurningum eftir lokaflautið í 2-1 sigri Chelsea gegn Englandsmeisturum Liverpool í dag.

Enzo Maresca þjálfari var rekinn af velli undir lokin þegar hann fagnaði sigurmarki Estevao innilega. Hann fetaði í fótspor José Mourinho og spretti niður hliðarlínuna til að fagna markinu og fékk seinna gula spjaldið sitt að launum.

„Þetta er óheppilegt en við skiljum öll tilfinningarnar sem fylgja svona leik," sagði Caballero. „Á kafla voru engar snertingar á miðju vallarins útaf því að leikurinn var svo opinn, liðin skiptust á að sækja. Bæði lið fengu góð færi til að skora mörk en í þetta sinn unnum við í uppbótartíma. Liverpool er búið að gera það nokkrum sinnum á tímabilinu, núna var komið að okkur.

„Fótboltinn gefur og fótboltinn tekur. Við erum virkilega ánægðir með að hafa fundið þetta sigurmark og tengingin á milli leikmanna og stuðningsmanna var frábær. Stemningin á pöllunum var ótrúleg síðustu 20 mínúturnar."


18 ára gamall Estevao kom inn af bekknum og var afar líflegur. Hann endaði á að skora sigurmarkið í uppbótartíma.

„Þetta er ógleymanleg stund, ekki bara fyrir Estevao heldur fyrir allt liðið. Við erum með ungt lið sem þarf að öðlast reynslu og ég er mjög stoltur af strákunum því við lentum í vandræðum í þessum leik. Menn voru að spila úr stöðum vegna meiðsla en við unnum samt."

Miðverðirnir Benoit Badiashile og Josh Acheampong meiddust báðir í sigri Chelsea og fórnaði Maresca höndum, því á þeim tímapunkti voru allir sex miðverðir liðsins fjarverandi. Auk þeirra tveggja eru Tosin Adarabioyo, Levi Colwill og Wesley Fofana meiddir, en Trevoh Chalobah var í leikbanni.

Vinstri bakvörðurinn Jorrel Hato og varnartengiliðurinn Roméo Lavia kláruðu leikinn í hjarta varnarinnar.

Chelsea er með 11 stig eftir 7 umferðir á nýju úrvalsdeildartímabili.
Athugasemdir