Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   lau 04. desember 2021 09:15
Elvar Geir Magnússon
Sendi fjórtán ára stelpu kynferðislegar myndir en fékk samning hjá Færeyjameisturunum
Patrick Da Silva er með dóm á bakinu.
Patrick Da Silva er með dóm á bakinu.
Mynd: KÍ
Patrick Da Silva, 27 ára gamall danskur fótboltamaður, hefur samið við Færeyjameistara KÍ í Klaksvík. Samningurinn hefur vakið mikið umtal í Færeyjum enda var Da Silva dæmdur fyrr á árinu fyrir að hafa sent ólögráða stúlku kynferðislegar myndir og myndband á samskiptaforritinu Snapchat.

Da Silva fékk skilorðsbundinn dóm fyrr á þessu ári en í fyrra var samningi hans við Lyngby, sem þá var í dönsku úrvalsdeildinni, rift.

Leikmaðurinn vakti athygli snemma á ferlinum en hann kom upp úr unglingastarfi Bröndby og lék fyrir U21 landslið Dana. Faðir hans er danskur en móðir brasilísk.

Hann hefur stigið fram í viðtölum eftir að dómurinn var kveðinn upp og sagst fullur eftirsjár. Ljóst þótti að hann hafi verið meðvitaður um að stelpan sem hann var í samskiptum við væri fjórtán ára gömul. Samskipti þeirra hófust á Instagram en færðust yfir á Snapchat þar sem hann sendi henni kynferðislegar myndir og myndband.

Hjá KÍ eru menn meðvitaðir um bakgrunn Da Silva en Mikkjal Thomassen, þjálfari liðsins, segir við heimasíðu félagsins að eftir talsverða umhugsun og ítarlegar samræður hafi verið ákveðið að gefa Da Silva „nýtt tækifæri".

Skiptar skoðanir eru á þeirri ákvörðun KÍ en félagið lýsir máli Da Silva sem „leiðindamáli" á heimasíðu sinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner