Leao orðaður við Liverpool - Bayern lækkar verðmiðann á Coman - Nunez vildi fara í janúar
   mið 05. mars 2025 15:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
FH heillaði um leið - „Markmiðið að sýna að ég eigi fullt erindi í efstu deild"
Mynd: FH
Í leik með Breiðabliki á undirbúningstímabilinu í fyrra.
Í leik með Breiðabliki á undirbúningstímabilinu í fyrra.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir/Stein Jøran Sanden
Lék með Grindavík 2023.
Lék með Grindavík 2023.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tómas Orri Róbertsson gekk í raðir FH í síðasta mánuði og skrifaði undir samning út 2027. Hann kemur til FH á frjálsri sölu frá Breiðabliki eftir að hann komst að samkomulagi við uppeldisfélagið um að mega leita á önnur mið.

Tómas Orri er miðjumaður sem var á láni hjá Gróttu á síðasta ári og hjá Grindavík tímabilið 2023. Hann ræddi við Fótbolta.net um félagaskiptin í FH.

„FH heillaði mig um leið frá fyrstu æfingu. Þetta er stór klúbbur, með góða leikmenn og þjálfara, frábæra umgjörð og skýr markmið sem heillaði mig. Það voru einhver önnur félög sem höfðu samband en áhuginn minn var alltaf á FH eftir að hafa æft þar í smá tíma og kynnst öllu þar," segir Tómas Orri.

Það rétta á þessum tímapunkti
Í vetur var sagt frá því hér á Fótbolti.net að Tómasi Orra væri frjálst að finna nýtt félag. Hvernig var viðskilnaðurinn við Breiðablik?

„Viðskilnaðurinn við Breiðablik var smá skrítin upplifun þar sem maður er búinn að vera þar í ansi langan tíma. Þegar ég lít til baka þá var þessi sameiginlega ákvörðun milli mín og Breiðabliks það rétta í stöðunni fyrir mig á þessum tímapunkti á ferlinum. Það var ekkert hægt að setja út á framkvæmdina á öllu ferlinu."

Lék með Einari Karli hjá Grindavík
Hvernig var aðdragandinn að skiptunum í FH og þekkti Tómas einhvern hjá FH áður en hann skipti?

„Það kom upp tækifæri nokkuð fljótt eftir viðskilnaðinn við Breiðablik að fá að æfa með FH og það var mjög mikill áhugi frá minni hálfu að prófa það og sjá hvernig það myndi þróast. Ég þekkti nokkra leikmenn áður en ég skipti svo yfir, bæði ungu strákana og menn sem ég hafði spilað með áður, Einar Karl sem dæmi, en ég var með honum hjá Grindavík."

Hópurinn getur gert góða hluti í sumar
Hvað langar þig til að afreka með FH?

„Mig langar að afreka margt með FH. Fyrst og fremst langar mig að ná sem bestum árangri í deildinni og að ná Evrópusæti væri gaman og gott markmið fyrir liðið. Hópurinn er mjög flottur, það eru fullt af hæfileikaríkum leikmönnum innan hópsins og ég hef fulla trú að þessi hópur geti gert góða hluti saman í sumar."

„Á persónulegu nótunum þá langar mig einfaldlega að spreyta mig í efstu deild og reyna hjálpa liðinu á sem mestan hátt til að ná góðum árangri."


Líður best á miðjunni
Hver er þín besta staða á vellinum?

„Að mínu mati er mín besta staða sexu (djúpur miðjumaður) eða áttu (á miðri miðjunni) hlutverkið á miðjunni og líður mér best þar."

Leikmaður sem hægt er að læra mikið af
Hvernig leggst það í þig að spila með Birni Daníel?

„Það leggst gríðarlega vel í mig. Bjössi er auðvitað frábær leikmaður með mikil gæði og reynslu sem maður getur lært mikið af. Það verður geggjað að fá að spila með honum í sumar."

Vill sýna að hann eigi erindi í efstu deild
Þú nefndir það áðan, en hvernig leggst það í þig að spila í efstu deild?

„Það er mjög spennandi að fara spila í efstu deild eftir tvö tímabil í Lengjudeildinni. Það verður gaman að fá að spreyta sig í efstu deild með FH og er eitt af mínum markmiðum að sýna að ég eigi fullt erindi í að spila í efstu deild."

Tvö ágætis tímabil
Varstu sáttur við tímann hjá Grindavík og Gróttu?

„Tíminn hjá bæði Grindavík og svo Gróttu á láni var svolítið upp og niður. Ég fékk mjög fína reynslu bæði árin þar sem þetta voru svona mín fyrstu ár í meistaraflokks bolta. Mér fannst ég fá fínar mínútur bæði árin til að þroskast sem leikmaður en þó ekki nógu oft í minni stöðu á vellinum. Heilt yfir þá reyndust þetta vera tvö ágætis tímabil til að þróa minn leik þrátt fyrir þau vonbrigði að falla með Gróttu á síðasta tímabili."

„Að lokum er ég mjög spenntur að vera kominn til FH og takast á við þær áskoranir sem koma upp þar,"
segir Tómas Orri.
Athugasemdir
banner
banner
banner