Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mán 05. apríl 2021 15:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Hlustaði á gagnrýnina og var sammála - „Skítlélegur varnarleikur"
Icelandair
Birkir Már Sævarsson.
Birkir Már Sævarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir í leiknum gegn Liechtenstein.
Birkir í leiknum gegn Liechtenstein.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsmaðurinn Birkir Már Sævarsson er í sóttkví eftir liðinn landsleikjaglugga og var á línunni í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 á laugardaginn.

Þar var meðal annars rætt um fyrstu landsleiki okkar í undankeppni HM.

„Við vorum óánægðir með Armeníuleikinn eins og hefur komið fram hundrað sinnum. Það var bara ekki nægilega gott og við vitum það. Við mættum svo almennilega í þennan leik gegn Liechtenstein og gerðum það mjög faglega," segir Birkir.

Liðið allt fékk mikla gagnrýni fyrir leikinn gegn Armeníu og Birkir var einnig gagnrýndur persónulega fyrir slakan varnarleik í öðru marki Armena, hann hafi ekki verið nægilega grimmur.

„Þegar maður stendur sig vel á maður skilið hrós og þegar maður gerir illa á maður skilið gagnrýni. Það er partur af því að vera í öllum störfum, ekki bara í boltanum. Persónulega var ég með skítlélegan varnarleik í þessu öðru marki. Ég sá gagnrýnina og hlustaði alveg á hana en hún truflaði mig ekkert, ég var bara sammála og þetta var lélegt. Ég er búinn að vera það lengi í þessu. Við vissum allir að þetta var ekki nógu gott," segir Birkir.

Sér 100 leiki í hillingum
Birkir og Alfons Sampsted eru nú í samkeppni um hægri bakvarðastöðu landsliðsins en Alfons spilaði leikinn gegn Þýskalandi.

„Það er samkeppni um allar stöður og ef hann spilar þá styð ég hann 100% og öfugt. Það eru mjög góð samskipti okkar á milli og hann á bjarta framtíð í landsliðinu. En á meðan ég er í hópnum vil ég auðvitað spila og hann vill spila. Það er bara heilbrigð og góð samkeppni og engin leiðindi," segir Birkir.

Birkir, sem spilar með Val, er nú kominn með 97 landsleiki og stefnir að sjálfsögðu á að ná 100 leikjum. Hann er 36 ára og heldur sér í toppstandi.

„Auðvitað væri ég að ljúga ef ég myndi ekki viðurkenna það. Það yrði ótrúlega flott að koma sér upp í 100 leiki. Kannski líka í ljósi þess hvernig ferillinn var framan af. Það var ekki í spilunum að maður væri að fara í eitthvað meira en að spila í mesta lagi fyrir Val. Auðvitað sér maður þessa 100 leiki í hillingum. Ég vonast til þess að halda uppteknum hætti í sumar og spila nægilega vel til að vera áfram í landsliðinu. Standið á mér er gott og ég ætti að vera í góðum gír í sumar."

Hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn í spilaranum hér að neðan eða í öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Útvarpsþátturinn - Láki um landsliðið, Addi Grétars og Birkir Már
Athugasemdir
banner
banner
banner