Chelsea og Liverpool berjast um Upamecano - Real Madrid vill kaupa Yildiz - Hjulmand til Man Utd?
banner
   sun 05. október 2025 16:01
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: KA verður áfram í deild þeirra bestu
Hans Viktor tryggði sæti KA-manna
Hans Viktor tryggði sæti KA-manna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
KA 1 - 1 Vestri
0-1 Jeppe Pedersen ('37 )
1-1 Hans Viktor Guðmundsson ('79 )
Lestu um leikinn

KA hefur formlega tekist að bjarga sér frá falli úr Bestu deild karla eftir að hafa gert 1-1 jafntefli við Vestra í 25. umferð deildarinnar á Greifavellinum í dag.

KA-menn voru lengi vel í tveimur neðstu sætunum og var það ekki fyrr en í seinni hluta mótsins sem liðinu tókst að klifra upp töfluna og koma sér í þægilega stöðu fyrir tvískiptingu.

Vestri hafði á meðan ekki unnið leik síðan það varð bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins og þá var Davíð Smári Lamude látinn taka poka sinn á dögunum. Jón Þór Hauksson tók við keflinu af honum.

Jeppe Pedersen kom Vestra í forystu á 37. mínútu leiksins. Jeppe tók innkast á Diego Montiel sem kom boltanum aftur á Jeppe. Hann kom boltanum fyrir markið, en einhvern veginn fór boltinn í gegnum pakkann og framhjá Rasheed í markinu.

KA-menn í heildina sterkari aðilinn í leiknum og fóru að banka fast á dyrnar þegar leið á seinni hálfleikinn.

Guðjón Ernir Hrafnkelsson kom sér í dauðafæri á 77. mínútu en setti boltann framhjá. Tveimur mínútum síðar fengu Vestra-menn skellinn.

KA fékk aukaspyrnu á fínum stað og var það Hallgrímur Mar Steingrímsson sem setti spyrnuna á hausinn á Hans Viktori Guðmundssyni sem skallaði boltann í netið.

Ótrúlega svekkjandi fyrir Vestra sem er með 28 stig og enn í harðri fallbaráttu þegar tvær umferðir eru eftir en KA í öðru sæti neðri hlutans með 33 stig.

Vestri á nú tvo mikilvæga leiki eftir gegn botnliðum Aftureldingar og KR. Það dugir Vestra líklega að vinna einn leik til að tryggja sæti sitt, en einnig er möguleiki á að markatala ráði úrslitum þegar talið verður upp úr pokanum í lok tímabils.
Besta-deild karla - Neðri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    KA 27 11 6 10 45 - 49 -4 39
2.    ÍA 27 11 1 15 37 - 50 -13 34
3.    ÍBV 27 9 6 12 34 - 37 -3 33
4.    KR 27 8 7 12 55 - 62 -7 31
5.    Vestri 27 8 5 14 26 - 44 -18 29
6.    Afturelding 27 6 9 12 36 - 46 -10 27
Athugasemdir
banner