Vestri gerði 1-1 jafntefli við KA á Akureyri fyrr í dag. Jón Þór nýráðinn þjálfari Vestra var vonsvikinn að hafa ekki klárað leikinn.
„Vonsvikinn að hafa ekki náð að klára þennan leik, við leiddum það lengi í leiknum og óþarfi að fá á sig mark úr föstu leikatriði sem við eigum auðveldlega að geta komið í veg fyrir. En þegar allt er tekið til þá held ég að þetta hafi verið sanngjörn úrslit".
Jón Þór er mættur aftur Vestur en hann þjálfaði Vestra í Lengjudeildinni árið 2021.
„Það er alltaf dásamlegt að koma Vestur en auðvitað ekki skemmtilegustu kringumstæðurnar en það er bara eins og fótboltinn er og núna er bara leggja hart að sér að koma liðinu á rétt ról".
Vestri átti mögulega að fá vítaspyrnu þegar að Rasheed virtist keyra út og kýla Tufa en það var dæmd aukaspyrna á Tufa.
„Frá mínu sjónarhorni þá fannst mér bara markmaðurinn kýla Tufa og mér fannst það rangur dómur en ég á eftir að sjá þetta betur".
Cafu Phete og Gunnar Jónas Hauksson voru utan hóps og var Jón Þór spurður út í ástæður þess.
„Þeir eru meiddir því miður, frábærir leikmenn og erfitt að skilja góða leikmenn eftir fyrir Vestan og mér fannst það sjást svolítið á liðinu í dag. Mér fannst KA hafa meira orkustig síðustu 10 mínúturnar í leiknum".