Landsliðsmaðurinn Kristian Nökkvi Hlynsson átti góðan leik er Twente vann þriðja leik sinn í röð í hollensku úrvalsdeildinni í dag.
Kristian Nökkvi, sem kom til Twente frá Ajax í sumar, fékk 8 í einkunn frá FotMob og með bestu mönnum vallarins er liðið vann 2-1 sigur á Heracles.
Sigurinn kom Twente upp í 5. sæti deildarinnar með 13 stig og er nú sjö stigum frá toppnum.
Andri Fannar Baldursson byrjaði á miðsvæði Kasimpasa sem gerði 1-1 jafntefli við Konyaspor í tyrknesku úrvalsdeildinni. Andri Fannar er fastamaður í liði Kasimpasa sem situr í 11. sæti með 9 stig.
Kolbeinn Þórðarson byrjaði hjá Gautaborg sem beið lægri hlut fyrir Hammarby, 2-1, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni. Gautaborg er í 5. sæti með 44 stig, einu stigi frá Evrópusæti.
Kristófer Jónsson lék allan leikinn hjá Triestina sem gerði markalaust jafntefli við Novara í C-deildinni á Ítalíu. Triestina er á botninum í A-riðli með -8 stig, en alls voru 20 stig dregin af liðinu vegna fjárhagserfiðleika félagsins.
Markús Páll Ellertsson var á bekknum hjá Triestina í fyrsta sinn en kom ekkert við sögu.
Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í Brann fengu 3-0 skell gegn Viking í toppslag í norsku úrvalsdeildinni.
Sævar Atli Magnússon byrjaði hjá Brann og þá kom Eggert Aron Guðmundsson inn af bekknum, en Hilmir Rafn Mikaelsson sat allan tímann á varamannabekk Viking.
Viking er áfram á toppnum með 53 stig en Brann í þriðja sæti með 46 stig.
Athugasemdir