Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 05. desember 2020 16:04
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Ég get ekki séð að honum sé stætt áfram í starfi"
Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari kvenna.
Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Borghildur Sigurðardóttir varaformaður KSÍ var með liðinu í Ungverjalandi.
Borghildur Sigurðardóttir varaformaður KSÍ var með liðinu í Ungverjalandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rætt var um stöðu Jóns Þórs Haukssonar landsliðsþjálfara kvenna í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.

Í gær var greint frá því að KSÍ væri að skoða framkomu Jóns Þórs í fögnuði Íslands eftir að landsliðið komst á EM.

„Ísland er komið á EM og árangurinn verið flottur hjá honum en ef hann er búinn að missa hópinn frá sér og þetta flokkast sem alvarlegur trúnaðarbrestur þá skiptir allt tal um sigurhlutfall samt engu máli í þessu samhengi," segir Elvar Geir Magnússon.

Tómas Þór Þórðarson hefur heyrt af því hvað Jón Þór á að hafa sagt við leikmenn þegar hann var undir áhrifum áfengis. Hann lét ýmislegt flakka og var með óviðeigandi ummæli sem snéru að getu leikmanna meðal annars. Bæði yfir allan hópinn og í persónulegu samtölum.

„Maður þykist vera með þokkalega fína mynd af þessu núna. Ég get ekki séð að honum sé stætt áfram í starfi nema að hópurinn allur komi með einhverja yfirlýsingu um að hann sé rétti maðurinn. Maður hefur heyrt að þetta hafi tekið verulega á þær nokkrar," segir Tómas.

„Miðað við sögurnar er maður ekki að búast við því að sú yfirlýsing sé að koma," segir Elvar

„Það yrði skrítið á þessu nýju tímum að maður sem brýtur svona af sér í starfi haldi starfinu. Í raun er það kannski skrýtið að hann sé ekki búinn að segja starfi sínu lausu," segir Tómas.

Varaformaðurinn var á staðnum
Elvar telur að það eigi ekki að taka langan tíma fyrir KSÍ að fá allar upplýsingar. Auðvelt sé að ræða við Söru Björk Gunnarsdóttur eða fá upplýsingar frá Borghildi Sigurðardóttur varaformanni sem var á staðnum.

„Ef Jón Þór er búinn að missa hópinn þá er það bara í höndum KSÍ að fá staðfestingu á því. Ég get ekki séð að það eigi að vera meira mál en að hringja í Söru Björk fyrirliða sem veit nákvæmlega hvað er í gangi innan hópsins. Það hlýtur að vera hægt að heyra bara í henni og taka svo ákvörðun," segir Elvar.

„Borghildur er svo með augu og eyru á staðnum. Það ætti því að vera auðvelt fyrir KSÍ að fá botn í þetta og niðurstöðu um hvort honum sé stætt á að halda áfram."

Hugsanlega tefur það ferlið að leikmannahópurinn og Jón Þór eru í heimkomusóttkví svo ekki er hægt að ræða við fólk augliti til auglitis.

Ef skipt verður um þjálfara telur Elvar rétt að Elísabet Gunnarsdóttir sé efst á blaði. Elísabet var hinsvegar að koma Kristianstad í Meistaradeildina og Tómas sér hana ekki taka við Íslandi á þessum tímapunkti.

Hlustaðu á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
Landsliðsumræða - Trúnaðarbrestur og þjálfaraleit
Athugasemdir
banner
banner