Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
   sun 05. desember 2021 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Er á sanngjarnari díl miðað við hvað var í pípunum í vor"
Andri Rúnar Bjarnason.
Andri Rúnar Bjarnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri jafnaði markametið í efstu deild með Grindavík 2017.
Andri jafnaði markametið í efstu deild með Grindavík 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Sóknarmaðurinn Andri Rúnar Bjarnason er að ganga í raðir ÍBV fyrir næsta tímabil.

Andri er 31 árs sóknarmaður sem leikið hefur erlendis síðustu ár. Eftir að hafa jafnað markametið í efstu deild á Íslandi sumarið 2017, þá hélt hann til Svíþjóðar og samdi við Helsingborg. Næst fór hann til Þýskalands og spilaði með Kaiserslautern en nú er hann hjá Esbjerg í Danmörku.

Hann er ekki í myndinni hjá Esbjerg og er því á leið heim. Hann er að ganga í raðir ÍBV, sem komst upp úr Lengjudeildinni síðasta sumar.

Rætt var um komu Andra Rúnars til Vestmannaeyja í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær. Tómas Þór Þórðarson sagði frá því síðasta sumar að Andri hefði verið reiðbúinn að koma á heim til Íslands ef hann fengi tvær milljónir króna í mánaðarlaun. Þær kröfur hafa víst minnkað aðeins núna.

„Þú manst hverju ég var að greina frá, hvað hann vildi fá í sinn hluta til að koma heim. Það var enginn sem vildi taka þátt í því. Það átti væntanlega að reyna að hjóla honum inn byggt á árangri fyrri ára og þessu sögulega markameti. Hann var frábær á þeim tímapunkti, en er búinn að vera mikið meiddur og spilað lítið," sagði Tómas.

„Oft hafa íslensk félög verið að taka þessar stjörnur heim fyrir mikinn pening óháð því hvernig þeir hafa verið að spila akkúrat þá. En það sem ég náði að komast að, þá var þetta búið að lækka. Hann fær sæmilega greitt og rúmlega það. Hann á það vel skilið... hann fær vel greitt fyrir sín störf, en er á sanngjarnari díl miðað við hvað var í pípunum í vor."

Það kemur nokkuð á óvart að nýliðar séu að fá leikmann heim sem setti markamet fyrir nokkrum árum.

„Hann hefur verið meiddur, verið lítið að spila... þessi meiðsli, þessi peningur, hvað erum við að tala um? Ég held að hann sé ekki leikmaður fyrir Óskar Hrafn (Þorvaldsson, þjálfara Breiðabliks). Víkingar eru með markahæsta leikmann deildarinnar og ef þeir ætla að fá sér einhvern ofursenter sem er tæpur á meiðslum, þá seturðu peninginn frekar í Kolbein Sigþórsson ef það er möguleiki. Valsmenn eru með Patrick Pedersen, FH-ingar með Matta Villa. Hann er kannski of dýr fyrir miðbiksliðin en svo eru svona óvanalegir nýliðar þarna því það er alltaf til sandur af seðlum í Vestmannaeyjum," sagði Tómas.

ÍBV mun mæta til leiks með Eið Aron Sigurbjörnsson, Guðjón Pétur Lýðsson og Andra Rúnar - að öllum líkindum - næsta sumar. Það verður alvöru hryggur.

„Þeir koma ansi vígalegir upp með þessa þrjá," sagði Tómas og segir að ÍBV sé að fá skemmtilegan leikmann.

Hægt er að hlusta á alla umræðuna hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Ferðalag til Englands, Jón Daði og Víkingar
Athugasemdir
banner
banner