fim 06. maí 2021 23:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Emery á leið í fimmta úrslitaleikinn en félagið í sinn fyrsta - „Mjög stoltur"
Mynd: EPA
„Góða kvöldið," byrjaði Unai Emery, stjóri Villarreal, viðtalið á BT Sport eftir markalaust jafntefli gegn Arsenal í kvöld.

Villarreal er komið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar og mætir Manchester United þann 26. maí. Oft hefur verið gert grín að Emery fyrir að segja 'Good Ebening' en ekki 'Good Evening'.

„Ég er mjög stoltur því við vitum að þetta er mjög mikilvægt fyrir okkur og Arsenal er mjög gott lið. Mér finnst við verðskulda þetta."

„Við unnum vel sem lið, vörðumst mjög vel og við stjórnuðum á köflum leiknum með því að halda boltanum. Þeir fengu samt besta færið."

„Í dag erum við að hugsa um að njóta augnabliksins og ætlum svo að undirbúa leikinn gegn United. Við eigum skilið að spila til úrslita og við munum sýna okkar bestu frammistöðu og munum berjast gegn Manchester um titilinn."


Þetta er í fyrsta sinn sem Villarreal fer í úrslitaleik í Evrópukeppni. Emery hefur hins vegar unnið keppnina þrisvar sinnum í þau fjögur skipti sem hann hefur komist í úrslitaleikinn. Enginn stjóri hefur komist jafnoft í úrslitaleikinn og Emery.

Hann var stjóri Sevilla sem vann keppnina 2014, 2015 og 2016. Hann tapaði hins vegar sem stjóri Arsenal árið 2019 gegn Chelsea.

Athugasemdir
banner
banner
banner