Garnacho vill ekki til Arabíu - Bayern gæti reynt við Trossard - Ferguson hefur gert munnlegt samkomulag við Roma
   fös 06. maí 2022 20:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þórir Jóhann upp í Serie A - Aron lagði upp gegn Frey og Sævari
Aron Sigurðarson.
Aron Sigurðarson.
Mynd: Horsens
Karólína Lea í leik með Bayern í kvöld.
Karólína Lea í leik með Bayern í kvöld.
Mynd: Mirko Kappes
Þórir Jóhann Helgason er kominn upp í ítölsku úrvalsdeildina með félagi sínu, Lecce.

Lecce tryggði sér sæti í deild þeirra bestu á Ítalíu með sigri gegn botnliði Pordenone í lokaumferðinni. Þórir kom inn á sem varamaður á 66. mínútu leiksins.

Þórir er á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku. Hann hefur komið við sögu í alls 25 leikjum á tímabilinu og verður fróðlegt að sjá hvernig hlutverk hans verður á næstu leiktíð - hvort hann fái að spreyta sig í Serie A.

Varnarmaðurinn Hjörtur Hermannsson lék allan tímann fyrir Pisa í 1-2 útisigri á Frosinone í sömu deild. Pisa er að fara í umspil um sæti í efstu deild. Því gætu tvö Íslendingafélög verið á leið upp um deild á Ítalíu.

Häcken á toppinn
Í Svíþjóð komst Íslendingafélag Häcken á toppinn með sigri gegn Linköping á heimavelli, 2-0.

Agla María Albertsdóttir kom inn á sem varamaður hjá Häcken í leiknum og spilaði um hálftíma. Diljá Ýr Zomers var ekki í leikmannahópi Häcken, sem er sem fyrr segir á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar.

Aron hafði betur gegn Frey og Sævari
Það var toppbaráttuslagur í dönsku 1. deildinni er Horsens tók á móti Lyngby. Aron Sigurðarson var í byrjunarliði Horsens í leiknum og hann lagði upp fyrra mark liðsins í 2-1 sigri.

Sævar Atli Magnússon byrjaði hjá Lyngby og lék tæpan klukkutíma. Markvörðurinn Frederik Schram var á meðal varamanna. Freyr Alexandersson er þjálfari liðsins.

Lyngby var á toppnum fyrir daginn en er núna í þriðja sæti, einu stigi á eftir Helsingor í öðru sæti. Horsens er á toppnum. Tvö efstu liðin fara upp og það eru fjórir leikir eftir.

Í dönsku úrvalsdeildinni spilaði Stefán Teitur Þórðarson rúmar 20 mínútur í 1-0 sigri Silkeborg gegn Randers. Silkeborg hefur komið mjög á óvart á þessari leiktíð og er í þriðja sæti.

Glódís og Karólína byrjuðu hjá Bayern
Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir voru báðar í byrjunarliðinu hjá þýska stórveldinu Bayern München í 0-3 sigri gegn Bayer Leverkusen.

Báðar koma þær til með að vera í landsliðshópi Íslands á Evrópumótinu í sumar.

Bayern er í öðru sæti þýsku deildarinnar en útlit er fyrir að Sveindís Jane Jónsdóttir og hennar stöllur í Wolfsburg muni hampa titlinum seinna í þessum mánuði.

Annars staðar í Þýskalandi, þá var Kolbeinn Birgir Finnsson í byrjunarliði hjá varaliði Borussia Dortmund í tapi gegn Verl, 1-2, í C-deild Þýskalands.

Kristian lék allan tímann
Í hollensku B-deildinni spilaði Kristian Nökkvi Hlynsson allan tímann í 1-1 jafntefli hjá varaliði Ajax gegn Graafschap. Ajax er í sjöunda sæti af 20 liðum.
Athugasemdir
banner