Bayern setur meiri kraft í viðræður við Musiala - Newcastle fylgist með Sane - Barcelona vill Kimmich
   fös 06. september 2024 17:49
Brynjar Ingi Erluson
Depay á leið til Brasilíu - Gerir tveggja ára samning
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hollenski sóknarmaðurinn Memphis Depay er að taka óvænta stefnu á ferli sínum en hann er að semja við brasilíska félagið Corinthians. Þetta segir Fabrizio Romano á X.

Í morgun var greint frá óvæntu samningstilboði Corinthians en hlutirnir hafa gerst nokkuð hratt eftir þær fregnir.

Samkvæmt Romano hefur brasilíska félagið náð munnlegu samkomulagi við Memphis um að hann geri tveggja ára samning.

Óvænt skref hjá Depay sem er aðeins þrítugur og næst markahæsti maður í sögu hollenska landsliðsins, fjórum mörkum á eftir Robin van Persie.

Ronald Koeman, þjálfari hollenska landsliðsins, hefur talað opinskátt um félagaskipti leikmanna í slakari deildir. Steven Bergwijn fór á dögunum til Al Ittihad frá Ajax og verður hann ekki valinn í landsliðið á meðan hann spilar þar. Bergwijn svaraði að vísu Koeman með því að segjast hvort sem er ekki hafa áhuga á því að spila fyrir Holland á meðan hann þjálfar liðið.

Depay heldur fast í vonina um að félagaskipti hans muni ekki koma í veg fyrir að hann geti spilað með hollenska landsliðinu, enda alveg við það að slá markametið.

Hollendingurinn var síðast á mála hjá Atlético Madríd á Spáni en áður lék hann með Barcelona, Lyon, Manchester United og PSV Eindhoven.
Athugasemdir
banner