sun 06. október 2019 18:31
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hjörtur góður gegn FCK - Álasund stigi frá því að komast upp
Hjörtur Hermannsson.
Hjörtur Hermannsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Kjartan skoraði sigurmark. Arnór er á toppnum í Svíþjóð.
Kjartan skoraði sigurmark. Arnór er á toppnum í Svíþjóð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel Leó og félagar í Álasundi eru nálægt því að komast upp.
Daníel Leó og félagar í Álasundi eru nálægt því að komast upp.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni Mark Antonsson.
Bjarni Mark Antonsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn í vörn Bröndby þegar liðið vann frábæran sigur á FC Kaupmannahöfn í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Leikurinn endaði 3-1 fyrir Bröndby.

Rasmus Falk, leikmaður FCK, fékk að líta rauða spjaldið eftir 20 mínútur í seinni hálfleik. Þá var staðan 2-1. Eftir það tryggði Kamil Wilczek sigur Bröndby með öðru marki sínu.

Íslendingavaktin vekur athygli á því að Hjörtur hafi spilað vel í leiknum, hann fékk 7 í einkunn frá BT Sport.

Bröndby er í sjötta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 19 stig. FCK er í öðru sæti með 25 stig.

Með sigrinum gerði Bröndby, Mitdjylland greiða. Midtjylland vann 2-1 útisigur á Silkeborg og lék Mikael Anderson rúmar 70 mínútur fyrir Midtjylland sem er á toppi deildarinnar með fjögurra stiga forskot.

Ísak Óli Ólafsson sat allan tímann á varamannabekk SönderjyskE í 2-1 sigri á Esbjerg. Eggert Gunnþór Jónsson var ekki í leikmannahópi SönderjyskE, sem er í sjöunda sæti dönsku úrvalsdeildarinnar.

Kjartan Henry gerði sigurmarkið
Áfram í Danmörku, en í B-deildinni þar í landi. Kjartan Henry Finnbogason heldur áfram að gera flotta hluti með Vejle.

Hann skoraði í dag sigurmarkið í 1-0 sigri á Vendsyssel. Kjartan skoraði markið á 87. mínútu, en hann er markahæstur í deildinni með 10 mörk í 12 leikjum. Vejle er þá á toppi deildarinnar með 24 stig.

Ingvar Jónsson var á varamannabekknum hjá Viborg gegn Roskilde. Ingvar hefur þurft að verma tréverkið á þessari leiktíð. Viborg er í þriðja sæti með 21 stig.

Álasund einu stigi frá úrvalsdeild
Í Noregi vann Álasund heimasigur á Raufoss í B-deildinni, 3-1. Daníel Leó Grétarsson og Aron Elís Þrándarson voru í byrjunarliði Álasunds og spiluðu allan leikinn. Davíð Kristján Ólafsson var allan tímann á bekknum og var Hólmbert Aron Friðjónsson ekki í hóp vegna meiðsla. Hann er meiddur á öxl og verður frá næstu vikurnar.

Eftir þennan sigur í dag vantar Álasundi aðeins eitt stig til að gulltryggja sæti sitt í efstu deild.

Viðar Ari Jónsson var í byrjunarliði Sandefjord og Emil Pálsson lék síðustu mínúturnar þegar Sandefjord vann 3-2 sigur gegn Kongsvinger. Sandefjord er í öðru sæti með 56 stig.

Í norsku úrvalsdeildinni lék Samúel Kári Friðjónsson allan leikinn á miðjunni hjá Viking í markalausu jafntefli gegn Stabæk. Viking er í fimmta sæti með 37 stig.

Þá gerðu Lilleström og Bodo/Glimt einnig markalaust jafntefli. Arnór Smárason lék allan leikinn fyrir Lilleström, en Oliver Sigurjónsson var ekki í hóp hjá Bodo/Glimt. Lilleström er í tíunda sæti og Bodo/Glimt í öðru sæti.

Dagur Dan Þórhallsson lék þá allan leikinn fyrir Kvik-Halden í 3-0 sigri á Egersunds. Halden er í öðru sæti í sínum riðli í C-deildinni, en Dagur er í láni hjá félaginu frá úrvalsdeildarfélaginu Mjondalen.

Malmö á toppnum í Svíþjóð - Bjarni skoraði
Malmö hefur verið að spila mjög vel að undanförnu og komst liðið á topp sænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld með sigri gegn Göteborg, 1-0.

Felix Beijmo skoraði sigurmark Malmö eftir klukkutíma leik. Arnór Ingvi Traustason lék allan leikinn fyrir topplið Malmö. Malmö er á toppnum með jafnmörg stig og Djurgården sem tapaði gegn Hammarby.

Það eru þrjár umferðir eftir í sænsku úrvalsdeildinni.

Aron Jóhannsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá Hammarby í sigrinum á Djurgården. Hammarby er í þriðja sæti, þremur stigum frá Djurgården og Malmö.

Það voru einnig Íslendingar að spila í sænsku B-deildinni. Nói Snæhólm Ólafsson var í byrjunarliði Syrianska og lék allan leikinn í 1-0 sigri á Örgryte. Þá spilaði Bjarni Mark Antonsson og skoraði í 2-2 jafntefli IK Brage gegn Trelleborg.

Bjarni Mark er búinn að skora fjögur mörk fyrir Brage í sænsku B-deildinni.

Drengirnir hans Milos Milojevic í Mjallby eru á toppnum í sænsku B-deildinni þegar þrjár umferðir eru eftir. Brage er í fjórða sæti og Syrianska að berjast við falldrauginn.

Landsliðsmiðverðir komu ekkert við sögu
Jón Guðni Fjóluson var ónotaður varamaður í sigri Krasnodar gegn Spartak Moskvu, 2-1. Krasnodar er í þriðja sæti með 26 stig, eins og fjögur önnur lið.

Annar landsliðsmiðvörður sem spilaði ekki í dag, Sverrir Ingi Ingason. Hann er áfram fastur við bekkinn hjá PAOK sem er í þriðja sæti í Grikklandi. PAOK vann 3-1 sigur á Asteras Tripolis í dag.

Bæði Sverrir og Jón Guðni eru í landsliðshópnum sem mætir Frakklandi og Andorra í undankepnni EM 2020 á næstu dögum.

Adam Örn Arnarson kom þá ekkert við sögu hjá Gornik Zabrze í pólsku úrvalsdeildinni er liðið gerði jafntefli gegn Cracovia. Gornik er í 11. sæti með 11 stig eftir 13 leiki.
Athugasemdir
banner
banner
banner