Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   sun 06. október 2024 21:14
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Blikum mistókst að hirða toppsætið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik 2 - 2 Valur
0-1 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('21)
1-1 Davíð Ingvarsson ('56)
1-2 Patrick Pedersen ('67)
2-2 Davíð Ingvarsson ('77)

Lestu um leikinn: Breiðablik 2 -  2 Valur

Breiðablik og Valur áttust við í gríðarlega eftirvæntum slag í Bestu deild karla, þar sem heimamenn í liði Blika gátu tekið toppsætið af Víkingi R. með sigri eftir að Víkingar gerðu 2-2 jafntefli við Stjörnuna fyrr í dag.

Í þeirri viðureign tók Stjarnan forystuna í tvígang en Víkingum tókst að jafna. Það sama var uppi á teningnum í Kópavogi, nema að Blikar fengu mikið af færum og hefðu getað skorað nokkur mörk til viðbótar.

Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði eina mark fyrri hálfleiksins eftir frábært einstaklingsframtak sem kom gegn gangi leiksins en bæði lið fengu góð tækifæri til að bæta marki við leikinn áður en flautað var til hálfleiks. Blikar höfðu verið sterkari aðilinn en Valsarar voru einnig hættulegir.

Jöfnunarmark Blika kom snemma í síðari hálfleik þegar Davíð Ingvarsson lagði boltann í netið með mjúku skoti sem Frederik Schram átti líklegast að verja.

Valsarar tóku þó aftur forystuna á 67. mínútu, í þetta skiptið kláraði Patrick Pedersen laglega eftir góða fyrirgjöf frá Tryggva. Gleðin entist þó ekki lengi þar sem Davíð Ingvars jafnaði metin á ný eftir að Blikar höfðu þjarmað að gestunum í nokkrar mínútur. Davíð skoraði glæsilegt mark með viðstöðulausu skoti þar sem hann smurði boltann undir samskeytin í fjærhorni marksins.

Sóknarþungi Breiðabliks jókst á lokakaflanum og áttu heimamenn góðar tilraunir en boltinn rataði ekki í netið. Ekkert sigurmark fékkst í slaginn og urðu lokatölur 2-2.

Blikar deila því toppsæti deildarinnar með Víkingum, en Víkingar eru með talsvert betri markatölu. Liðin mætast svo í innbyrðisviðureign í gífurlega spennandi slag í lokaumferðinni.

Valur er áfram í þriðja sæti sem er jafnframt síðasta Evrópusætið í ár, einu stigi fyrir ofan Stjörnuna.
Athugasemdir
banner
banner