Hafrún Rakel Halldórsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir voru báðar í byrjunarliði Bröndby sem vann þægilegan sigur gegn OB í efstu deild danska boltans í dag.
Bröndby vann 3-0 en Arna Þráinsdóttir, dóttir Þráins Haraldssonar sem lék með Þrótti Neskaupsstað fyrir 30 árum síðan, var ekki með í hóp hjá OB.
Þetta var þriðji sigur Bröndby í röð og er liðið í þriðja sæti deildarinnar, með 14 stig eftir 8 umferðir. OB er með 12 stig.
Sigdís Eva Bárðardóttir sat þá á bekknum er Norrköping vann á útivelli gegn Brommapojkarna í efstu deild í Svíþjóð. Norrköping siglir lygnan sjó í fimmta sæti deildarinnar - 14 stigum frá Evrópu.
Þar var annað Íslendingalið sem átti leik er Örebro gerði jafntefli við AIK og var Katla María Þórðardóttir í byrjunarliði heimakvenna en var skipt af velli á 62. mínútu fyrir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Liðin áttust við í fallbaráttunni þar sem þau eru bæði í fallsæti, jöfn með 16 stig eftir 22 umferðir. Þau eru fimm stigum frá öruggu sæti í deildinni þegar fjórar umferðir eru eftir.
Að lokum gerði Damaiense 1-1 jafntefli við Racing Power í efstu deild portúgalska boltans, þar sem tveir fyrrum leikmenn íslenska boltans mættust. Emma Hawkins, sem raðaði inn mörkunum með FHL í sumar, var í byrjunarliði Damaiense sem leikur undir stjórn Þorláks Árnasonar á heimavelli gegn Hannah Sharts, fyrrum leikmanni Stjörnunnar.
Damaiense er með fjögur stig eftir fimm fyrstu umferðir tímabilsins. Racing Power er með einu stigi meira og leik til góða.
Athugasemdir