„Ég er hundfúll að hafa ekki unnið sem hljómar kannski eins og frekja þegar við jöfnum með síðustu spyrnu leiksins. Mér fannst við spila fyrri hálfleikinn þannig að það var algjör óþarfi að vera komnir 2-1 undir á 60. mínútu.“ sagði Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, eftir 2-2 jafntefli gegn Fylki í Kórnum í dag.
Lestu um leikinn: HK 2 - 2 Fylkir
Ómar Ingi segir að það séu vonbrigði að HK hafi ekki unnið í dag.
„Það var svekkjandi og staða sem við komum okkur í sjálfir. Við vorum of passífir, vorum of langt frá því sem við gerðum í fyrri hálfleiknum og vorum 2-1 undir. Mér fannst eftir það við herja vel á þá. Við fáum fullt af tækifærum til að skora og fengum fullt af tækifærum til þess áður en við skorum. Við ætluðum okkur sigurinn og það eru vonbrigði að hafa ekki náð því í dag.“
Er þetta saga sumarsins þessi leikur í dag?
„Það er alveg óhætt að segja það. Við náum ekki nógu heilsteyptri frammistöðu, sérstaklega í varnarleiknum okkar, þegar við gerum hluti sem við gerum vel þá gleymast aðrir hlutir. Við gefum of mörg dauðafæri á okkur.“
Hvað tekur Ómar út úr þessu í dag?
„Ég tek það út úr þessu að við misstum ekki Vestramenn lengra frá okkur en þetta og við fengum allavegana stig. Það er ennþá möguleiki þó við höfum ekki stjórn yfir öllum hlutunum sem spila þar inn í. Við þurfum að halda áfram og fara inn í næstu tvo leiki þar sem það dugar ekkert annað en sigur. Það er ekki einu sinni víst að það dugi. Við getum ekki horft til baka þegar tímabilið er búið og ekki gert allt sem við gátum, það verður ansi svekkjandi ef önnur lið misstiga sig og við gerum ekki okkar.“
Hvernig metur Ómar möguleika HK að halda sér uppi?
„Auðvitað erum við brattari, Vestramenn fengu fleiri stig en við í þessari umferð. Um leið og það er möguleiki hef ég trú eins og við höfum haft í allt sumar og fyrir tímabilið. Við stjórnum því miður ekki örlögum okkar sjálfir.“
Viðtalið við Ómar í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. KA | 27 | 10 | 7 | 10 | 44 - 48 | -4 | 37 |
2. KR | 27 | 9 | 7 | 11 | 56 - 49 | +7 | 34 |
3. Fram | 27 | 8 | 6 | 13 | 38 - 49 | -11 | 30 |
4. Vestri | 27 | 6 | 7 | 14 | 32 - 53 | -21 | 25 |
5. HK | 27 | 7 | 4 | 16 | 34 - 71 | -37 | 25 |
6. Fylkir | 27 | 5 | 6 | 16 | 32 - 60 | -28 | 21 |