Tveimur síðustu leikjum helgarinnar er lokið í efstu deild spænska boltans, þar sem Sevilla lagði Real Betis að velli áður en Real Sociedad tók á móti Atlético Madrid í stórleik.
Sevilla spilaði furðu góðan leik gegn Betis, þar sem Dodi Lukebakio gerði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 50. mínútu. Sevilla var lakara liðið í fyrri hálfleik en skipti um gír í leikhléinu og verðskuldaði að lokum sigur.
Sevilla og Betis eru jöfn með 12 stig eftir 9 umferðir eftir þessa innbyrðisviðureign.
Orri Steinn Óskarsson var þá ónotaður varamaður er Real Sociedad gerði 1-1 jafntefli við Atlético Madrid.
Julián Alvarez kom Atlético yfir snemma leiks eftir frábæran undirbúning frá Antoine Griezmann sem gaf glæsilega hælsendingu til að skapa gott færi sem Alvarez nýtti vel.
Eftir opnunarmarkið var nánast einungis eitt lið á vellinum, þar sem lærisveinar Diego Simeone pökkuðu saman í vörn og lokuðu öllum leiðum að markinu. Enda tókst heimamönnum í liði Sociedad ekki að skora jöfnunarmark fyrr en á 84. mínútu, þegar króatíski miðjumaðurinn Luka Sucic skoraði eftir undirbúning frá Mikel Oyarzabal.
Lokatölur urðu 1-1 og er Atlético í þriðja sæti í La Liga, með 17 stig eftir 9 umferðir - sjö stigum á eftir toppliði Barcelona.
Real Sociedad hefur farið furðu hægt af stað á nýju tímabili og er aðeins komið með 9 stig.
Sevilla 1 - 0 Betis
1-0 Dodi Lukebakio ('50 , víti)
Rautt spjald: Tanguy Nianzou, Sevilla ('90)
Real Sociedad 1 - 1 Atletico Madrid
0-1 Julian Alvarez ('1 )
1-1 Luka Sucic ('84 )
Athugasemdir