Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fös 06. desember 2019 15:00
Magnús Már Einarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Allt í steik hjá Deportivo La Coruna - Á leið í C-deild?
Magnús Már Einarsson
Stuðningsmenn Deportivo La Coruna hafa séð bjartari tíma.
Stuðningsmenn Deportivo La Coruna hafa séð bjartari tíma.
Mynd: Getty Images
Diego Tristan raðaði inn mörkum með Deportivo á gullaldarárunum.
Diego Tristan raðaði inn mörkum með Deportivo á gullaldarárunum.
Mynd: Getty Images
Juan Carlos Valeron stýrði umferðinni á miðjunni hjá Deportivo La Coruna á sínum tíma.
Juan Carlos Valeron stýrði umferðinni á miðjunni hjá Deportivo La Coruna á sínum tíma.
Mynd: Getty Images
Ryan Babel fagnar marki með Deportivo La Coruna árið 2016.
Ryan Babel fagnar marki með Deportivo La Coruna árið 2016.
Mynd: Getty Images
Fyrir tuttugu árum síðan var Deportivo La Coruna í toppsætinu á Spáni og vorið 2000 varð liðið spænskur meistari í fyrsta og eina skipti í sögunni.

Næstu árin var Deportivo eitt sterkasta lið Spánar og vann meðal annars ótrúlega eftirminnilegan sigur á AC Milan í Meistaradeildinni árið 2004. Deportivo skellti þá AC Milan 4-0 á heimavelli eftir 4-1 tap á Ítalíu í fyrri leiknum.

Fótboltaáhugamenn gætu kannast við nöfn eins og Juan Carlos Valeron, Roy Makaay, Victor Sanchez, Mauro Silva, Noureddine Naybet, Djalminha og Diego Tristan frá þessum gullaldarárum Deportivo.

Undanfarin ár hefur heldur betur fallað undan fæti hjá Deportivo La Coruna en liðið féll úr spænsku úrvalsdeildinni 2011 og hefur undanfarin ár flakkað á milli efstu og næstefstu deildar.

„Myndum ekki vinna lið skipað blindu fólki"
Nú er hins vegar ennþá meira vesen því Deportivo hefur ekki unnið leik síðan í fyrstu umferð í spænsku B-deildinni. Í augnablikinu er Deportivo í neðsta sæti í spænsku B-deildinni með tólf stig eftir átján umferðir en sex stig eru upp í öruggt sæti.

Stuðingsmenn liðsins eru brjálaðir yfir gangi mála og leikmenn eru ekki upplitsdjarfir.

„Þetta tímabil hjá okkur er ótrúlegt. Það er ótrúlegt hversu lélegir við erum og hvað við erum í miklum vandræðum. Við myndum ekki einu sinni vinna lið sem væri skipað blindu fólki," sagði Peru Nolaskoain, leikmaður Depor, á Instagram eftir markalaust jafntefli gegn Lugo um síðustu helgi.

Lykilmenn voru seldir frá Deportivo La Coruna síðastliðið sumar og þjálfaraskipti á dögunum hafa litlu breytt. Nýi þjálfarinn Luis Cesar Sampedro er strax orðinn valtur í sessi.

Gætu fallið niður í 80 liða deild
Ef Deportivo La Coruna fellur niður í þriðju efstu deild þá gæti orðið þrautinni þyngri að komast aftur upp. Í spænsku C-deildinni spila 80 lið en þau leika í fjórum tuttugu liða riðlum. Fjögur lið komast síðan upp í B-deildina eftir úrslitakeppni.

„Annað fall væri hryllingur. Framtíð Deportivo er í mikilli hættu," segir Xurxo Fernandez hjá dagblaðinu La Voz de Galicia.

Vandræðin innan vallar tengjast að einhverju leyti erfiðri fjárhagsstöðu Deportivo La Coruna undanfarin ár. Augusto Cesar Lendoiro var forseti Deportivo La Coruna á árunum 1988 til 2014. Hann kom með mikinn pening inn í félagið og fékk meðal annars Bebeto og Rivaldo á svæðið á sínum tíma.

Í stjórnartíð Augusto safnaði Deportivo hins vegar líka upp miklum skuldum og skiptar skoðanir eru á störfum hans á meðal stuðningsmanna. Árið 2013 skuldaði Deportivo 156 milljónir evra og í kjölfarið lét Augusto af störfum sem forseti. Deportivo hefur notað lán til að borga upp skuldir við skattayfirvöld á Spáni.

Eigendur Deportivo verða með fund á næstunni og þar ætlar Augusto að reyna að komast aftur í forsetastólinn. Sumir stuðningsmenn telja að hann geti komið inn og bjargað málunum en aðrir telja að öll vandamálin séu út af honum og að hann eigi ekki að snúa aftur.

Hvað sem gerist í forsetamálunum þá er ljóst að mikið þarf að breytast ef Deportivo ætlar ekki að falla niður í C-deildina næsta vor, tuttugu árum eftir að spænski meistaratitillinn fór á loft.

Staða neðstu liða í B-deildinni á Spáni
16 Sporting Gijon 19 stig
17 Tenerife 18 stig
18 Real Oviedo 18 stig
19 Málaga 17 stig
20 Extremadura UD 17 stig
21 Racing Santander 16 stig
22 Deportivo La Coruna 12 stig

Byggt á grein The Athletic
Athugasemdir
banner
banner
banner