Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
banner
   fös 07. apríl 2023 12:14
Brynjar Ingi Erluson
„Ef þetta er leiðandi fyrirtæki íþróttagagna ættu þeir að vera með þessi gögn"
Pétur Pétursson
Pétur Pétursson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur Pétursson, þjálfari kvennaliðs Vals, á mjög erfitt með að skilja vinnubrögð ÍTF (Íslensks Toppfótbolta) í kringum Fantasy-deild Bestu-deildarinnar.

Í ár verður Fantasy leikurinn bara í karladeildinni en í tilkynningu frá ÍTF, sem heldur leiknum úti, er gefin sú skýring að leikurinn sé keyrður á gögnum sem séu því miður ekki í boði í kvennadeildinni eins og staðan sé í dag.

ÍTF keyrir á gögnum frá Opta - Stats Perform, sem er leiðandi á því sviði íþróttagagna í heiminum, en býður ekki upp á lifandi gögn úr Bestu deild kvenna.

Pétur furðar sig á þessum vinnubrögðum og bendir á að Wyscout bjóði upp á þessa tölfræði, fyrir bæði karla- og kvennadeildirnar.

„Ef þetta er leiðandi fyrirtæki íþróttagagna ættu þeir að vera með þessi gögn. KK og KVK á Íslandi eru með Wyscout þar sem allir leikir eru. Maður bíður eftir að leiðandi fyrirtæki sem selur bolta tilkynni að allir boltar sé búnir bara fyrir Bestu deild kvk,“ skrifaði Pétur á Facebook.

Fyrir nokkrum dögum tjáði hann sig einnig um auglýsinguna fyrir Bestu deildina en mikið hefur verið rætt um ójafnt kynjahlutfall. Kallaði hann eftir því að ÍTF fari alfarið í það að sjá um karladeildina og leyfi öðrum að gera vel við kvennadeildina.

„Varð fyrir miklum vonbrigðum enn og aftur með ÍTF sem birti auglýsingu um Bestu deild kk og Bestu deild kvk. Gæti verið betra að ÍTF ætti bara að sjá um kk deildina eins og þeir gera mjög vel og láta kvk deildina vera hjá einhverjum öðrum sem hafa einhvern áhuga að gera hana af þeirri virðingu sem leikmenn eiga skilið,“ skrifaði Pétur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Pétur lýsir yfir óánægju sinni með ÍTF, en undir lok síðasta tímabils óskaði hann eftir því að ÍTF myndi ekki senda fulltrúa á verðlaunaafhendingu Vals er liðið vann Íslandsmeistaratitilinn.

Ástæðan var sú að lokaumferðin fór fram klukkan 14:00 en tveimur tímum síðar mættust FH og Víkingur í úrslitum Mjólkurbikarsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner