„Ég er stoltur af því hvað leikmenn lögðu á sig fyrir stiginu eftir erfiðan og öðruvísi undirbúning," sagði Ómar Ingi Guðmundsson þjálfari HK eftir jafntefli gegn KA á Akureyri í dag.
Lestu um leikinn: KA 1 - 1 HK
Leikurinn átti upphaflega að fara fram klukkan 17 en var færður vegna veðurs. Kópavogsliðið ferðaðist í átta tíma með rútu til Akureyrar í gær og ljóst að liðið kemst ekki heim í dag.
„Við vorum aðeins til baka til að byrja með. Svo fórum við aðeins að stíga aðeins á þá, það opnaðist aðeins meira fyrir okkur en þá líka. Arnar á ekki að þurfa að hafa svona mikið að gera en frábært að hann sé klár í það þegar þess þarf," sagði Ómar en Arnar Freyr í marki HK átti frábæran leik.
HK er spáð falli af flestum í ár en liðið er staðráðið í því að afsanna það.
„Það skiptir engu máli, við erum í þannig verkefni að afsanna þessar spár og sýna fram á það að það sem við trúum á að búi í liðinu sé til staðar," sagði Ómar.
Eins og áður segir er óvíst hvenær HK kemst aftur heim.
„Það er vonandi einhver að hringja í Vegagerðina og rútufyrirtækið og taka stöðuna. Það er töluvert skárra að vera hér með allavega stig ef við þurfum að vera hérna eitthvað lengur," sagði Ómar léttur í bragði.