Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, fagnaði gríðarlega vel eftir sigur gegn Val í Bestu deildinni á dögunum. Breiðablik vann þann leik 1-0 og skoraði Stefán Ingi Sigurðarson sigurmarkið í seinni hálfleik.
Óskar var gestur í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag þar sem hann ræddi um fagnaðarlætin eftir þann leik. Hann sagði að þau hefðu ekki tengst Val á neinn hátt.
„Það sem að gerðist var að ég fattaði allt í einu að við vorum hættir að fagna sigrum," sagði Óskar en Blikar eru ríkjandi Íslandsmeistarar og hafa unnið ansi marga fótboltaleiki undanfarin misseri.
„Við vorum búnir að gleyma hvað það er gaman að vinna leiki og að það sé alls ekki sjálfsagt að vinna leiki. Maður á í raun og veru að renna sér fótskriðu eftir öllum vellinum í hvert sinn sem maður vinnur fótboltaleik - því það er svo gaman."
„Það að sigra leiki er frábær tilfinning og maður má ekki reyna að bæla það niður; vera eitthvað kúl, klappa tvisvar og fara svo inn að fá sér Subway samloku. Það meikar engan sens. Ég var bara að minna mig sjálfan á það að ég verð að njóta þess að vera í þessu, njóta þess þegar þú vinnur. Ekki skemmdi það fyrir að þetta var sterk frammistaða."
Óskar bætti svo við:
„Þú reynir líka að kveikja í stuðningsmönnunum með því að tengjast þeim, og þú tengist þeim best í gegnum þetta. Nei, þetta hafði ekkert að gera með að þetta var Valur. Þetta hefði getað verið hvaða lið sem er. Þetta var meira 'sýndu að þú ert manneskja, sýndu að þú ert með tilfinningar, ekki vera of svalur að þetta skiptir ekki lengur máli'. Þetta skiptir miklu máli, að spila vel og skemmta áhorfendum. Þegar það fylgir með að vinna leiki þá er það geggjuð tilfinning og maður þarf að sýna það."
Hann sagði einnig í útvarpsþættinum að hann hefði upplifað varnarmekanisma hjá liðinu eftir síðasta tímabil, að menn væru kannski hugsa um að verja titilinn en ekki sækja hann. „Ég upplifi enn hungur í liðinu en það voru ákveðnir þættir í leik okkar framan af móti... við náðum yfirhöndinni en föllum til baka og förum að verja eitthvað. Við erum ekki góðir þegar við erum að verja eitthvað. Þess vegna hef ég notað það að sækja titilinn."
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér að neðan.
Athugasemdir