fim 07. júlí 2022 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Monza fær Pessina (Staðfest) - Ellefti leikmaðurinn sem kemur inn
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Monza eru nýliðar í efstu deild ítalska boltans og ætla ekki að spara sig á leikmannamarkaðinum í sumar.


Silvio Berlusconi, fyrrum eigandi AC Milan, er eigandi Monza og er hann með son sinn Paolo Berlusconi í stjórninni auk Adriano Galliani, fyrrum framkvæmdastjóra Milan til 30 ára.

Monza er búið að krækja í ellefu leikmenn í sumar eftir að Matteo Pessina bættist við hópinn. Pessina, sem hóf ferilinn hjá Monza, kemur á lánssamningi frá Atalanta.

Hinn 25 ára gamli Pessina hefur átt erfitt uppdráttar hjá Atalanta. Hann átti frábært tímabil með Verona fyrir tveimur árum og vann sér inn sæti í ítalska landsliðinu þar sem hann hefur skorað 4 mörk í 14 leikjum.

Ef Monza tekst að bjarga sér frá falli þá er félagið skyldað til að kaupa Pessina fyrir 15 milljónir evra.

Fyrr í júlí krækti Monza í Stefano Sensi á lánssamningi frá Inter auk þess að fá Alessio Cragno á láni frá Cagliari. Þar að auki kom Andrea Ranocchia á frjálsri sölu frá Inter og keypti félagið nokkra leikmenn sem voru á láni og fóru upp með Monza í sumar.

Pedro Pereira var keyptur frá Benfica, Valentin Antov frá CSKA Sofia og Mattia Valoti frá SPAL. Þar að auki voru Davide Bettella og Andrea Colpani keyptir frá Atalanta og Michele Di Gregorio frá Inter. Að lokum keypti félagið Andrea Carboni frá Cagliari, sem var ekki á láni hjá Monza á síðustu leiktíð.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner