Hallgrímur Jónasson þjálfari KA var ánægður með sigur liðsins á HK í síðasta leiknum í sumar.
Lestu um leikinn: KA 1 - 0 HK
„Það er gaman að enda á því að vinna. Héldum hreinu og spiluðum ágætisleik. Ég hefði viljað skora meira, hefði viljað sjá meiri gæði þegar menn voru að komast í góðar stöður," sagði Haddi.
Tveir 17 ára gamlir leikmenn voru í byrjunarlðinu í dag. Markvörðurinn Ívar Arnbro Þórhallsson og Valdimar Logi Sævarsson.
„Valdi hefur spilað með okkur mikið og er orðinn vanur því. Ívar hefur spilað í æfingaleikjum. Það er spennandi að fá að byrja og vera í markinu, það er erfið staða þegar maður er ungur pjakkur. Hann er gríðarlega efnilegur, metnaðarfullur og ótrúlega rólegur, kominn langt í hausnum," sagði Haddi.
„Ég hafði engar áhyggjur af honum. Það var ekki mikið að gera hjá honum í dag en það sem hann gerði, gerði hann vel."
Vonbrigði í deildinni en mikil ánægja með Mjólkurbikarinn og Evrópukeppnina.
„Við erum mjög ánægð með tímabilið í heild. Höltrum í deildinni en KA fer í bikarúrslit og þrjár umferðir áfram í Evrópu. Gríðarlegt álag, við spilum 53 leiki á þessu ári, eitthvað sem við höfum ekki prófað áður, dýrmæt og góð reynsla og lærdómsríkt," sagði Haddi.
Það eru nokkrir leikmenn að verða samningslausir sem Haddi vill eindregið halda hjá félaginu. Hann vill þó fara að yngja upp.
„Við munum skoða stöður og aldur á leikmönnum þegar ég veit nákvæmlega hverjir verða hjá okkur og hverjir ekki," sagði Haddi.























