Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   mán 07. október 2024 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Fagnaði titlinum á börum en fékk gleðifréttir í dag - „Mér er sama um allt annað"
'Þetta er því mikill léttir'
'Þetta er því mikill léttir'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikmenn Breiðabliks voru heiðraðir á Kópavogsvelli í gær.
Leikmenn Breiðabliks voru heiðraðir á Kópavogsvelli í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslandsmeistari í þriðja sinn.
Íslandsmeistari í þriðja sinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það gerir allt að hafa tekið þennan titil'
'Það gerir allt að hafa tekið þennan titil'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þótt ég sé smá hölt, þá sé ég mjög mikinn mun á mér á einum sólarhring'
'Þótt ég sé smá hölt, þá sé ég mjög mikinn mun á mér á einum sólarhring'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Katrín Ásbjörnsdóttir varð á laugardag Íslandsmeistari með Breiðabliki. Breiðablik gerði jafntefli við Val í lokaumferð mótsins og voru það úrslit sem dugðu Blikum til að landa titlinum. Þetta var í þriðja sinn sem Katrín verður Íslandsmeistari en hún vann fyrst með Þór/KA 2012 og svo með Stjörnunni 2016.

Katrín fór meidd af velli gegn Val á laugardaginn en það þurfti að bera hana af velli vegna hnémeiðsla. Þegar Fótbolti.net heyrði í henni í dag var hún nýbúin að fá út úr myndatöku þar sem búið var að útiloka krossbandsslit.

Lestu um leikinn: Valur 0 -  0 Breiðablik

„Það er ekkert krossbandsdæmi, sem betur fer, en það er einhver grunur um að hnéskelin hafi farið úr lið. Ég fæ frekari upplýsingar seinna í dag, en það eru allavega mjög góðar fréttir að krossböndin séu heil. Ég veit ekki hvernig framhaldið er, en ég held að allt sé betra heldur en krossböndin. Þetta er því mikill léttir," segir Katrín.

„Já, þetta leit mjög illa út í leiknum. Ég fékk einhverjar myndir sendar eftir leikinn og þá sést að fóturinn var í svaka snúningi, í stöðu sem ég vissi ekki að hann gæti farið í. Í augnablikinu er ég að fara skjóta á markið og þegar ég er að munda fótinn, áður en ég skýt, þá klikkar eitthvað í hnénu og ég finn bara fyrir smelli, og eiginlega tveimur smellum, þetta var mjög skrítið. Svo klára ég að fara í gegn með sveifluna, en þetta gerist þarna áður en ég næ að skjóta í boltann, og ég dett niður. Ég festist eitthvað í grasinu og þannig gerist þetta."

Ekki eftir handritinu
í kjölfarið var Katrín borin af velli en tæpar tíu mínútur voru til leiksloka þegar atvikið átti sér stað. Hvernig voru lokamínúturnar í stressi og sársauka?

„Ótrúlega skrítið allt saman. Ég fór beint inn í klefa en ég vildi ekkert vera þar. Ég náði ekki að standa undir sjálfri mér, ætlaði að fara á hækjur en það gekk ekki af því ég var svo verkjuð. Ég var borin aftur út og ég náði að klára síðustu þrjár mínúturnar með þeim á hliðarlínunni."

„Ég svo missti af lokahófinu, kíkti aðeins á þær rétt til að segja hæ en fór svo bara heim. Þetta var því ekki alveg það sem ég hugsaði mér."


„Mér er sama um allt annað"
Í augnablikinu, náði gleðin að vera sterkari en sársaukinn?

„Já, allan daginn. Það er alltaf þannig. Ég hugsaði einmitt áðan hvernig þetta hefði farið ef við hefðum ekki landað þessu. Þá væri ég örugglega bara í einhverju svartholi. Það gerir allt að hafa tekið þennan titil, mér er sama um allt annað."

Katrín þurfti að styðja sig við hækjur í gær, en er laus við þær í dag og er farin að stíga í fótinn. „Þetta er vel bólgið, en ég er alltaf að ná að labba betur í rauninni. Þótt ég sé smá hölt, þá sé ég mjög mikinn mun á mér á einum sólarhring."

Trú og auka orka
Hver er lykillinn að því að þið endið uppi sem Íslandsmeistarar?

„Mér fannst trúin, og sérstaklega í úrslitakeppninni, það var einhver auka orka með okkur sem landaði þessu. Mér fannst ég sjá það á öllum leikmönnum síðustu vikur, á æfingum, inni í klefa, orkan í liðinu var þannig. Það var þessi tilfinning, við vorum allar búnar að sjá þetta fyrir okkur. Það var aldrei einhver efi eða neitt slíkt."

„Við ætluðum að vinna þennan síðasta leik, en það gekk ekki. Jafnteflið dugði. Þetta var svo sætt."


Vonbrigðin gáfu auka blóð á tennurnar
Kom auka hvatning eftir að hafa tapað bikarúrslitaleiknum?

„Örugglega, ég held það sé alltaf þannig, það er svekkjandi að tapa úrslitaleikjum, líka með bikarúrslitin í fyrra. Það pirraði okkur. Markmiðið var að ná í titil í ár, annað hefði verið vonbrigði. Tapið í bikarúrslitunum gaf okkur auka blóð á tennurnar, alveg klárlega."

Að verða samningslaus
Næst hjá Katrínu er að bíða eftir frekari upplýsingum um meiðsli sín. Svo tekur við frí þar sem tímabilið er búið. Samningur hennar við Breiðablik rennur út í nóvember en hún hefur ekki rætt við félagið um áframhaldandi samning.

„Ég er að fara á fund í dag með Nik (þjálfara Breiðabliks), svo bara sjálfum til," sagði Katrín.
Athugasemdir
banner
banner