þri 07. desember 2021 21:43
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mary Alice yfirgefur Val og fer til Angel City (Staðfest)
Mary Alice Vignola.
Mary Alice Vignola.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vinstri bakvörðurinn Mary Alice Vignola verður ekki áfram í herbúðum Íslandsmeistara Vals.

Hún hefur ákveðið að halda heim til Bandaríkjanna þar sem hún er búin að semja við Angel City FC. Um er að ræða nýtt félag sem mun byrja að spila í bandarísku deildinni - sem er gríðarlega sterk deild - árið 2022.

Meirihluti félagsins er í eigu kvenna. Fjórtán fyrrum leikmenn bandaríska kvennalandsiðsins, þar á meðal Mia Hamm og Abby Wambach, eru í fjárfestahópnum sem og leikkonurnar Natalie Portman, Jennifer Garner, Jessica Chastain og Eva Longoria. Og jú, tennisgoðsögnin Serena Williams.

Mary Alice er fjórði leikmaðurinn sem gengur til liðs við Angel City. Christen Press, fyrrum leikmaður Manchester United, er einnig í hópnum.

Það var áhugi á Mary Alice frá fleiri félögum í Bandaríkjunum, en hún skrifaði undir tveggja ára samning við Angel City, sem er í Los Angeles.

Mary Alice var í tvö ár á Íslandi; fyrsta árið hjá Þrótti og svo hjá Val.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner