Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   lau 07. desember 2024 23:48
Brynjar Ingi Erluson
LA Galaxy bandarískur meistari í sjötta sinn
LA Galaxy vann MLS-bikarinn eftirsótta
LA Galaxy vann MLS-bikarinn eftirsótta
Mynd: Getty Images
Los Angeles Galaxy varð í kvöld bandarískur meistari í sjötta sinn í sögu félagsins er það vann New York Red Bulls, 2-1, í úrslitum á Dignity Health Sports Park í Los Angeles.

Ótrúlegast við úrslitin er það að Galaxy hefði getað skorað minnst fimm eða sex mörk.

New York átti engin svör við frábærum sóknarleik Galaxy sem tókst að sundurspila vörn þeirra hvað eftir annað.

Galaxy skoraði tvö mörk snemma leiks. Joseph Paintsil fékk boltann í gegn á 9. mínútu, setti hann undir markvörð Red Bulls sem náði þó snertingu á hann, en neyddist til að horfa á boltann leka í netið.

Dejan Joveljic skoraði annað markið fjórum mínútum síðar eftir aðra einfalda og auðvelda sókn.

Galaxy átti skalla í þverslá og fleiri góð færi til að bæta við en inn vildi boltinn ekki.

Sean Nealis minnkaði muninn á 28. mínútu eftir hornspyrnu. Eftir smá darraðardans skoppaði boltinn til Nealis sem tók hann á bringuna áður en hann skoraði með hnitmiðuðu skoti í hægra hornið.

Leikurinn var meira og minna eign Galaxy eftir það. Það kom stangarskot í síðari hálfleiknum og þá slapp sóknarmaður liðsins einn á móti markverði en setti boltann framhjá.

Ótalmörg klúður en það kom ekki að sök. Galaxy vann MLS-bikarinn í sjötta sinn í sögunni eða oftast allra liða frá því keppnin var sett á laggirnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner