Newcastle á eftir Scalvini - Barcelona snýr sér aftur að Díaz - Tottenham vill belgískan miðvörð
   mið 08. apríl 2020 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Werner ekki leikmaður fyrir Bayern eða Liverpool"
Dietmar Hamann skilur ekki hvers vegna Liverpool og Bayern München ættu að vilja fá Timo Werner, sóknarmann RB Leipzig.

Werner, sem hefur skorað 21 mark í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu, hefur verið sterklega orðaður við bæði félög.

Hamann, sem lék bæði fyrir Bayern og Liverpool á ferli sínum, var í hlaðvarpsþætti Raphael Honigstein þar sem hann sagði: „Ég held að hann sé ekki leikmaður fyrir Bayern eða Liverpool miðað hvernig þessi lið spila í dag."

„Hvar á hann að spila? Jafnvel þó að við tökum Salah og Mane út úr myndinni þá er hann ekki kantmaður og sóknarmannsstaðan er líklega sú mikilvægasta í liði Liverpool."

„Firmino er vantmetinn að margra mati. Hann er sóknarmaður sem vill mikið vera í boltanum, hann skorar ekki mörg sem aðrir leikmenn skora en hann kemur öðrum leikmönnum inn í spilið. Það er ekki það sem Werner gerir."

Hamann finnst það líka furðulegt að Bayern sé á eftir honum þar sem í þýska stórliðinu er leikmaður að nafni Robert Lewandowski.

„Það kæmi mér á óvart ef Hansi Flick hefur mikinn áhuga. Við höfum séð hann í þýska landsliðinu í ákveðnum leikjum þar sem hann spilar á kantinum. Hann er ekki nægilega góður á boltanum og að komast fram hjá leikmönnum."

„Það er ekki hans leikur og því myndi það koma mér mjög á óvart ef hann fer til Bayern."

Werner hefur raðað inn mörkunum frá því hann fór til Leipzig frá Stuttgart árið 2016. Þá hefur hann gert 11 mörk í 29 landsleikjum með Þýskalandi.
Athugasemdir
banner