„Frammistaðan var fyrir neðan allar hellur, óboðleg og langt undir því sem þetta Blika lið á að sýna. Við vorum heppnir að vinna þennan leik." sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðablik eftir sigurinn á Fylki í Árbænum í kvöld.
Lestu um leikinn: Fylkir 1 - 2 Breiðablik
Óskar Hrafn Þorvaldsson segir að frammistaðan hafi verið óboðleg en hvað var hann svona mest ósáttur með?
„Nefndu það. Sóknarleikinn, varnarleikinn, við vorum hægir í uppbyggingunni, hugmyndasnauðir, lítil hreyfing án bolta, lélegir að pressa, lélegir að pressa þegar við töpuðum boltanum, lélegir í stöðunni einn á móti einum. Við fáum mark úr okkur upp úr horni sem er ekki gott þannig veldu bara einhvern þátt leiksins og við vorum ekki nógu góðir í honum."
,,Stundum er auðvitað fótboltinn þannig að þú vinnur sem þú átt kannski ekki skilið að vinna og þú tapar leikjum sem þú átt kannski skilið að tapa. Fylkismenn voru flottir, vel skipulagðir og mér fannst þeir vera með meiri orku í þessum leik og það hryggir mig. Mér fannst leiðinlegt að horfa á það."
Viðtalið í heild sinni má sjá í sjónvarpinu hér að ofan.